Handbolti

U18 strákarnir í úrslitaleikinn á EM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur hefur farið á kostum og skoraði tíu mörk í kvöld.
Haukur hefur farið á kostum og skoraði tíu mörk í kvöld. mynd/heimasíða ehf
Íslenska handboltalandsliðið skipað drengum átján ára og yngri er komið í úrslitaleikinn á EM í Króatíu eftir 30-26 sigur á heimamönnum.

Jafnræði var með liðunum framan af en Ísland náði góðum kafla um miðbik hálfleiksins þar sem þeir breyttu stöðunni úr 6-6 í 10-7. Ísland leiddi þó bara með einu marki í hálfleik, 13-12.

Ísland leiddi alltaf í síðari hálfleik en Króatarnir voru aldrei langt undan. Mest náðu þeir að minnka muninn í eitt mark en nær komust þeir ekki og lokatölur fjögurra marka sigur strákanna okkar, 30-26.  

Haukur Þrastarson var valinn maður leiksins en hann skoraði tíu mörk í fimmtán skotum. Næstur kom Dagur Gautason með sex mörk og Stíven Tobar Valencia skoraði fjögur mörk.

Ísland mætir Svíum í úrslitaleiknum á sunnudaginn en Svíarnir rúlluðu yfir Danmörk í hinum undanúrslitaleiknum, 31-22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×