Í stuttri yfirlýsingu sem birt var á Twitter-reikningi myndarinnar segir að ástæðan fyrir brotthvarfi leikstjórans sé listrænn ágreiningur á milli framleiðanda og Boyle.
Michael G. Wilson, Barbara Broccoli and Daniel Craig today announced that due to creative differences Danny Boyle has decided to no longer direct Bond 25. pic.twitter.com/0Thl116eAd
— James Bond (@007) 21 August 2018
Leikstjórinn, sem vann Óskarsverðlaunin árið 2009 fyrir leikstjórn á myndinni Slumdog Millionaire, tilkynnti í mars á þessu ári að hann ynni nú að handriti nýrrar Bond-myndar, og yrði það fyrir valinu færi Boyle með leikstjórn myndarinnar.
Bond 25 hefur vakið mikið umtal og eftirvæntingu, en stefnt er að því að frumsýna myndina í nóvember 2019 og verður þetta síðasta mynd Daniel Craig í hlutverki hins sívinsæla James Bond.
Boyle hefur áður leikstýrt Craig þegar hann hafði umsjón með opnunaratriði Ólympíuleikanna í London árið 2012 og brá Craig þar fyrir í hlutverki spæjarans fræga. Það er því ljóst að næsta samstarf þeirra félaga þarf að bíða betri tíma.