Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Afturelding 22-27 │Mosfellingar völtuðu yfir Stjörnuna

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Leikmenn Aftureldingar fagna marki í kvöld
Leikmenn Aftureldingar fagna marki í kvöld vísir/bára
Afturelding vann fimm marka sigur á Stjörnunni í Garðabænum í kvöld, 22-27. Fimm mörk skyldu liðin einnig að í hálfleik 10-15. 

Það dró til tíðinda strax á upphafs mínútunni, eftir aðeins 28 sekúndur fékk Birkir Benediktsson, leikmaður Aftureldingar, beint rautt spjald fyrir brot á Agli Magnússyni. Það var þó ekki að sjá á leik Mosfellinga að lykilmann vantaði því gestirnir stjórnuðu leiknum allt frá fyrstu mínútu. Þéttur varnarleikur þeirra gerði heimamönnum erfitt fyrir sem trekk í trekk misstu boltann. Þá átti Arnór Freyr Stefánsson, markvörður gestanna frábæran leik í dag. 

Það var lítið jákvætt að finna í leik Stjörnunnar í fyrri hálfleik, varnarleikurinn hjá þeim þéttist aðeins þegar líða tók á fyrri hálfleikinn og Sigurður Ingiberg varði mikilvæga bolta. Það munar um minna fyrir Garðbæinga þegar Ara Magnús Þorgeirsson vantar, en hann var meiddur í dag og því ekki á skýrslu. Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, nýtti bæði leikhléin sín í fyrri hálfleik en lið hans átti fá svör gegn sterku liði gestanna. 

Það varð lítil breyting á leiknum í síðari hálfleik, Afturelding hélt áfram sínum leik og náðu þeir þegar mest lét 11 marka forystu, 12-23. Eftir það fóru mosfellingarnir að gefa aðeins eftir og hleyptu þar með Stjörnunni inní leikinn sem náðu að minnka muninn niður í fimm mörk og loka tölur 22-27 í Garðabænum. 

Bára Dröfn, ljósmyndari Vísis, var í TM höllinni í kvöld og tók meðfylgjandi myndir.

Af hverju vann Afturelding? 

Afturelding var betri aðilinn á öllum vígstöðvum í dag, Stjarnan átti aldrei séns í þessum leik. Varnarleikur liðsins var frábær og gerðu þeir stórskyttum Garðbæinga ansi erfitt fyrir í dag. 

Hvað gekk illa?

Leikur Stjörnunnar gekk illa frá A-Ö, sama hvar á er litið, varnarlega eða sóknarlega. Það gekk ekkert upp. 5 marka munur sýnir ekki rétta mynd af þessum leik. Stórskyttur liðsins, þeir Egill Magnússon og Aron Dagur Pálsson voru samanlagt með 9 mörk úr 24 skotum. 

Hverjir stóðu uppúr?

Allt Aftureldingar liðið kom vel út í dag. Arnór Freyr átti mjög góðan dag í markinu með yfir 40% markvörslu. Nýju leikmenn liðsins áttu flottan leik, Júlíus Þórir atkvæðamestur í liðinu með 6 mörk og Tumi Steinn þar á eftir með 5 mörk. Annars verðum við að gefa vörninni gott orð fyrir frábæran leik. 

Það stóð enginn uppúr í liði Stjörnunnar en Starri Friðriksson átti fínan endasprett og skoraði í heildina 6 mörk. Markvörðurinn, Sigurður Ingiberg Ólafsson, reyndi svo hvað hann gat að halda sínum mönnum inní leiknum en vörnin fyrir framan hann ekki uppá marga fiska. 

Hvað gerist næst?

Á laugardaginn halda Stjörnumenn til Vestmannaeyja þar sem þeir mæta ÍBV en Afturelding tekur síðan á móti ÍR, mánudaginn 17. september.

Rúnar: Menn misstu hausinn strax

„Við komum mjög lemstraðir út úr þessum leik, við vorum mjög slappir í dag“, sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar. 

„Það er sama hvar gripið er niður, við vorum bara lélegir. Við getum tekið varnarleikinn, færsluna fram og aftur völlinn, þetta var allt svo hægt. Menn bara misstu hausinn strax í fyrri hálfleik. Það var ekki fyrr en leikurinn var búinn að einstaka leikmenn stigu upp.“ sagði Rúnar, afar ósáttur með leik sinna manna í dag.

„Það er engin afsökun fyrir einu eða neinu, þetta var bara lélegt. Við fengum á okkur alltof mörg mörk í hraðaupphlaupum og við spiluðum lélegan sóknarleik. Við þurfum að gera miklu, miklu betur en þetta.“ 

Einn besti leikmaður Stjörnunnar, Ari Magnús Þorgeirsson, spilaði ekki með liðinu í dag. Hann meiddist á æfingu í vikunni og missir því að fyrstu leikjum liðsins. Rúnar segir það stórt að missa hann en að það hafi vantað meira en bara Ara Magnús í dag. 

„Það er alveg rétt að okkur vantaði Ara Magnús en hinu megin, þar nær Egill (Magnússon) sér ekki á strik, hann var langt frá sínu besta í dag sem og aðrir leikmenn, því miður.“ sagði Rúnar að lokum 

Ari Magnús er tognaður á mjöðm og býst hann við því að missa af fyrstu þremur leikjum liðsins. 

vísir/bára
Einar Andri: Böddi og Gunni eins og kóngar 

„Við spiluðum góðan leik í dag. Vörn, sókn og markvarsla, þetta var allt virkilega gott.“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar að leik loknum. 

„Við gáfum aðeins eftir á síðasta korterinu. Við vorum þá með 11 mörk á þá og þetta endar í 5 mörkum. Ég ætla ekkert að gagnrýna strákana fyrir það. Þeir voru orðnir þreyttir, Birkir (Benediktsson) datt nátturlega út strax í upphafi leiks og menn voru farnir að þreytast, sem er eðlilegt. Strákarnir sýndu frábær liðsheild og menn voru flottir í dag.“ 

Líkt og áður hefur komið fram þá fékk Birkir Benediktsson að líta rauða spjaldið strax í upphafi leiks. Einar Andri segir að brotið hafi vissulega litið illa út en að rauða spjaldið hafi ekki endilega verið rétta niðurstaðan

„Brotið leit mjög illa út, Egill datt illa og hefði getað meitt sig. Dómararnir mátu þetta svona, ég hef heyrt að þetta hafi ekki verið brot með læstum olnbogum hjá Birki en þeir fá bara eitt augnablik til að sjá þetta og verða bara að bera ábyrgð á því.“

Varnarleikur Aftureldingar var til fyrirmyndar og hrósaði Einar Andri þeim félögum Böðvari Páli Ásgeirssyni og Gunnari Malmquist fyrir þeirra framlag í dag. 

„Mér fannst Böddi og Gunni vera í landsliðsformi í dag, þeir stýrðu varnarleiknum eins og kóngar. Svo var Arnór (Freyr Stefánsson) frábær í markinu. 

„Nýju leikmennirnir komu vel inní þetta. Þeir hafa spilað vel á undirbúningstímabilinu og ég bjóst við að þeir myndu spila svona vel í dag.“ sagði Einar að lokum og hrósar þar framlagi nýju leikmannanna. Stefánssynirnir þrír áttu allir góðan leik, þeir Arnór Freyr, Finnur Ingi og Júlíus Þórir sem og hinn ungi og efnilegi, Tumi Steinn Rúnarsson. 

vísir/bára
vísir/bára
vísir/bára
vísir/bára
vísir/bára
vísir/bára

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira