Umræðan um Kaepernick snýr að því að hann var fyrsti leikmaður NFL-deildarinnar til að fara á hnén á meðan þjóðsöngur Bandaríkjanna er spilaður fyrir leiki. Það gerði hann í þeim tilgangi að mótmæla kynþáttamisrétti og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum. Leikmaðurinn hefur sætt mikilli gagnrýni og hann sakaður um vanvirðingu, meðal annars af Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Í auglýsingunni eru sýndar myndir af íþróttastjörnum á sínum yngri árum og nú á meðan Kaepernick talar til áhorfenda og hvetur þá til að sigrast á mótlæti. Á meðal íþróttamanna í auglýsingunni eru Serena Williams, LeBron James, Odell Beckham, Shaquem Griffin og bandaríska kvennalandsliðið.
Talið er að umrædd auglýsing verði fyrst sýnd í bandarísku sjónvarpi þegar NFL-deildin hefst í kvöld. Fjöldi leikja í deildinni fer svo fram á sunnudag og verða tveir þeirra í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Sjá má umrædda auglýsingu að neðan.