Bandaríkjamaðurinn Ben Baldanza er hættur í stjórn WOW air. Hann tók þess í stað sæti í stjórn flugfélagsins JetBlue í Boston og segist hann hafa hætt í stjórn WOW til að forðast hagsmunaárekstra. Þetta kemur fram á vef Túrista. Þar segir að Svanhvít Friðriksdóttir, talskona flugfélagsins, hafi þá sagt að Baldanza væri enn í stjórn félagsins.
Baldanza segir hins vegar að hann hafi hætt í stjórninni um leið og hann hóf störf fyrir JetBlue. Hann hafi þó vitað af því að hann væri enn kynntur sem stjórnarformaður á vefsíðu WOW og sömuleiðis í útboðsgögnum vegna skuldabréfaútgáfu WOW.
Sömuleiðis situr hann enn fundi og sinnir ráðgjafastörfum fyrir WOW, enda hafi hann verið eini meðlimur stjórnarinnar sem hefði reynslu af rekstri flugfélags. Baldanza var á árunum 2005 til 2016 forstjóri Spirit flugfélagsins.
Í frétt Túrista er Baldanza spurður út í frétt Morgunblaðsins um að WOW skuldi Isavia lendingargjöld upp á allt að tvo milljarða króna. Hann segist þekkja til skuldar við Keflavíkurflugvöll en hann hafi ekki vitað af fréttaflutningi um málið.
