Beðið er fregna af skuldabréfaútboði WOW og var því velt upp á vef Túrista að Kauphöllin myndi jafnvel stöðva viðskipti með hlutabréf Icelandair þangað til fregnir berast af WOW. Sagði Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, að fregna væri að vænta í vikulok.
Hlutabréf í Icelandair hafa farið upp um fjögur prósent í dag en Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir í samtali við Vísi að það standi ekki til að stöðva viðskiptin því engar forsendur séu fyrir því.

„Það er út frá þessu fjárfestaverndar sjónarmiði sem skráningin á að veita. Það er að segja að hluthafar hafi aðgang að þessum vettvangi hverju sinni og það er ein af þessari sérstöðu skráðra bréfa. Við stöndum þess vegna vörð um hana. Í því fellst fjárfestavernd, að það sé opið fyrir viðskipti,“ segir Páll.
Í mjög sérstökum tilvikum hafa viðskipti verið stöðvuð í skamman tíma og nefnir Páll sem dæmi dagana eftir efnahagshrunið árið 2008
„Yfirleitt þegar er lokað fyrir viðskipti með einstaka bréf, sem gerist sára sjaldan, þá er mögulega að vænta einhverra nýrra upplýsinga sem skipta verulegu máli og félögin hafa látið okkur vita af því og það er hætta á ójafnræði af þeim sökum, eða það hafa lekið út upplýsingar sem skapa hættu á ójafnræði,“ segir Páll.
Í þeim tilvikum sé um að ræða annars konar tilvik þar sem aðstandendur Kauphallarinnar vita að upplýsingarnar eru á forræði skráða félagsins og það sé hægt að greiða úr þeim málum fljótt.
„Og þar af leiðandi, ef það er lokað, þá vitum við að lokunin varir í skamman tíma. Þannig að þau tilvik eru allt annars eðlis.“
Eins og áður hefur verið greint frá er beðið eftir fregnum af skuldabréfaútboði WOW Air en Páll telur ólíklegt að viðskipti með Icelandair verði stöðvuð ef upplýsingar um útboðið leka út.
„Ég tel ólíklegt að það yrði tilefni til stöðvunar viðskipta.“