Fótbolti

Emil: Ekki farið að leggjast á sálina hjá mér

Anton Ingi Leifsson skrifar
Emil eltir uppi Eden Hazard í kvöld.
Emil eltir uppi Eden Hazard í kvöld. vísir/vilhelm
Emil Hallfreðsson, miðjumaður Íslands, segir að markmið leiksins gegn Belgum í kvöld hafi einfaldlega verið að standa sig betur en í afhroðinu gegn Sviss á laugardag.

„Ég held að það hafi allavega ekki vantað baráttu og dugnað í dag en þetta þriðja mark var kannski óþarfi,” sagði Emil í samtali við Tómas Þór Þórðarson í leikslok.

„Við lögðum upp með að gera betur í síðasta leik. Það vantaði andann og baráttuna í síðasta leik sem vantar yfirleitt aldrei. Við ætluðum allavega að bæta fyrir það.”

„Við vissum hins vegar að við værum að fara spila við enn erfiðari andstæðing en Sviss. Við gáfum allt í þetta en samt svekktir.”

Belgarnir eru með stórkostlegt fótboltalið og segir Emil að það sé vandasamt verk að dekka þessa pilta.

„Það er mjög erfitt. Þetta eru heimsklasssaleikmenn í hverri stöðu. Við höfum gert þetta oft áður og gengið betur. Við gáfum allt í þetta og erum með nýjan þjálfara og nýjar áherslur.”

„Það vantar líka einhverja leikmenn og það eru nýjir menn að koma inn sem stóðu sig mjög vel í dag. Það segir alltaf sitt þegar það vantar menn og bara að slípa okkur saman en ég held við getum verið sáttir.”

Það er langt síðan að Ísland vann fótboltaleik en Emil tekur í svipaðan streng og Kolbeinn Sigþórsson og segir að þetta sé ekki farið að setjast á sálina hjá liðinu.

„Nei. Þetta er meiri umræðan í fjölmiðlum. Þetta er ekki farið að leggjast á sálina hjá mér. Við erum að spila gegn toppþjóðum í marga mánuði og auðvitað viljum við vinna leik. Planið er að vinna næsta leik. Það er engin spurning.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×