„Þetta spratt í raun út frá umræðum um helstu vandamál samfélagsins sem herja á börn. Það var móðir sem sagði okkur reynslusögu frá sjö ára syni sínum sem slysaðist inn á klámsíðu og áfallinu sem hún fékk yfir óhindruðu aðgengi hans að slíku efni. Þá ekki bara í gegnum klámsíður heldur auglýsingar sem birtast börnunum einnig í gegnum öpp sem þau nota,” segir Elín Lára Baldursdóttir, nemi í tómstundar- og félagsfræði. Hún segir hópinn vilja vekja athygli á þessu auðvelda aðgengi og skapa umræður í samfélaginu.
„Við viljum umræðu um kynlíf og virðingu í samskiptum upp á yfirborðið. Markmiðið er að reyna að höfða til foreldra. Þetta er málefni og umræða sem getur reynst flókin en það er nauðsynlegt að efla foreldra og hvetja til að taka þetta samtal,” segir hún um markmið hópsins.

Öll með sinn einkaskjá
Í framhaldi fór hópurinn að grenslast fyrir og segir Elín að þau hafi alls ekki gert sér grein fyrir hversu stórt vandamálið sé. Þau settu á laggirnar Facebook-síðu og nota myllumerkið #ofungt, sem er þá vísan í að flestir eru of ungir þegar klám verður á vegi þeirra í gegnum snjalltækið. Hún hvetur fólk til að segja söguna sína undir myllumerkinu. „Lang flest börn eru með snjallsíma, sem í raun er bara þeirra einkaskjár. Það er ekkert lengur þannig að lokuð herbergishurð verji þau frá umheiminum, hann er bara allur í símanum,” bendir hún á.Hún segir gagnrýna hugsun mikilvæga börnum í dag. Það þarf að ræða við þau og sá tímapunktur sé komin að ræða opinskátt um kynlíf. „Tækniþróunin hefur verið svo hröð síðustu ár og þetta kannski runnið úr greipum foreldra. Þau kunna ekkert endilega á öll forrit sem börnin eru að nota í símanum sínum.” segir hún. „Reynslusögurnar sem ég heyrði í tímanum voru sjokkerandi. Ég hef gluggað í rannsóknir þar sem kemur fram að meðalaldur drengja sem skoða klám er 11 ára. Þarna voru sögur af börnum niður í sex ára.“