Innlent

Bæjarstjórn Akraness harmar stöðuna hjá Orkuveitu Reykjavíkur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Bæjarstjórn Akraness styður ákvörðun stjórnar orkuveitu Reykjavíkur um að veita Bjarna Bjarnasyni forstjóra tímabundið leyfi á meðan rannsókn fer fram á vinnustaðamenningu innan fyrirtækisins. Akraneskaupstaður á 5,5 prósenta hlut í Orkuveitunni og í ályktun frá bæjarstjórn segir að bærinn harmi þá stöðu sem upp er komin í starfsmannamálum Orkuveitunnar og áhersla lögð á að nýhafin rannsókn á vinnustaðamenningu innan fyrirtækisins verði til lykta leidd með fagmannlegum hætti og úrbætur gerðar.

Telur bæjarstjórn Akraness ljóst að ímynd fyrirtækisins hafi beðið hnekki og að endurvekja þurfi traust og trúverðugleika orkuveitunnar.Það er von bæjarstjórnar Akraness að starfsmenn og stjórnendur OR leggi rannsókninni lið með það að markmiði að bæta vinnustaðamenningu fyrirtækisins.

„Í eigendastefnu fyrirtækisins er lögð áhersla á að OR komi fram af heilindum og trausti og ræki samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Eigendur vilja að litið verði til fyrirtækisins sem trausts samstarfsaðila sem eftirsóknavert sé að starfa fyrir og með. Bæjarstjórn Akraness telur ljóst að þessi ímynd hefur beðið hnekki og endurvekja þarf traust og trúverðugleika fyrirtækisins. Ekkert fyrirtæki er sterkara en sá mannauður sem þar hefur byggst upp,“ segir í ályktun bæjarstjórnar.

„Standa þarf vörð um allt hið góða í starfseminni og bæta úr því sem miður virðist hafa farið. Óæskileg hegðun og framkoma í garð starsfmanna og þeirra í milli verður ekki liðin.“

Þá styður bæjarstjórnin jafnframt tímabundna ráðningu Helgu Jónsdóttur sem forstjóra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×