Kristján Flóki Finnbogason spilaði allan leikinn í tapi Brommapojkarna fyrir Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Brommapojkarna er í fallbaráttu í sænsku deildinni og gæti dottið í fallsæti ef önnur úrslit um helgina eru þeim ekki hliðholl.
Gestirnir frá Sundsvall komust yfir í fyrri hálfleik en Brommapojkarna jöfnuðu strax í upphafi seinni hálfleiks. Sundsvall kláraði hins vegar leikinn með tveimur mörkum á fjögurra mínútna kafla undir lok leiksins.
Í Búlgaríu var Hólmar Örn Eyjólfsson á varamannabekknum allan leikinn í 4-1 sigri Levski Sofia á Bistritsa. Levski er á toppi deildarinnar með 22 stig eftir níu leiki. CSKA Sofia er þremur stigum á eftir Levski með leik til góða.

