Handbolti

Tvö mörk á fimm sekúndum eftir breyttan dóm og trylltar lokasekúndur | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Áhorfendur fengu eitthvað fyrir peninginn í Víkinni.
Áhorfendur fengu eitthvað fyrir peninginn í Víkinni. mynd/skjáskot
Víkingur og Þróttur skildu jöfn, 21-21, í fyrstu umferð Grill 66-deildar karla í handbolta í Víkinni í gærkvöldi en lokasekúndur leiksins voru heldur betur áhugaverðar.

Víkingar vildu fá vítakast þegar um 40 sekúndur voru eftir en fengu ekki í stöðunni 19-21. Þróttarar tóku leikhlé í næstu sókn og voru enn tveimur mörkum yfir þegar að 30 sekúndur voru eftir.

Sókn gestanna var ansi stirðbusaleg og unnu Víkingar boltann af Þrótturum. Þeir brunuðu fram í hraðaupphlaup og skoraði Kristófer Andri Daðason af miklu öryggi framhjá Halldóri Rúnarssyni, markverði Þróttar, þegar um 14-15 sekúndur voru eftir af leiknum.

Svekktur Halldór, sem er uppalinn Víkingur, tók sér þrjár sekúndur í að taka upp boltann en þá bað annar dómari leiksins hann um að drífa sig. Innan við sekúndu síðar ákvað hann að reka markvörðinn af velli í tvær mínútur. Stutt fundarhöld dómaranna skiluðu svo rauðu spjaldi á Halldór og við það bættu þeir svo vítakasti.

Í raun hefðu dómararnir átt að stöðva tímann og reka Halldór áfram með boltann á miðjuna en þarna var um rangan dóm að ræða. Til að bæta gráu ofan á svart breyttu þeir svo miðjunni í vítakast sem Víkingar fengu.

Kristófer Andri fór á vítalínuna og skoraði af öryggi og jafnaði metin. Tvö mörk hjá honum og tvö mörk hjá Víkingum á innan við fimm sekúndum. Þróttur tók aftur miðju en tókst ekki að skora og náðu Víkingar í ótrúlegt stig eftir trylltar lokasekúndur.

Síðustu mínútuna í leiknum má sjá hér að neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×