Fótbolti

Munum standa áfram með okkar málstað

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KsÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KsÍ. vísir/ernir
Eitt skrýtnasta mál sumarsins varð enn skrýtnara í gær þegar leikur Hugins og Völsungs í 2. deild karla átti að fara fram. Þegar flauta átti leikinn á voru liðin sitt í hvoru bæjarfélaginu. Seyðfirðingar höfðu fyrr um daginn lýst yfir áhyggjum við KSÍ af því að völlurinn væri ekki í góðu standi. Var leikurinn því færður á Fellavöll á Egilsstöðum en þegar átti að flauta hann á voru leikmenn Hugins tilbúnir í slaginn á Seyðisfirði. Á Egilsstöðum biðu leikmenn Völsungs og dómaraþríeykið þar til ljóst var að leikurinn færi ekki fram.

„Við mættum á svæðið til að spila leikinn en þegar þeir voru ekki mættir hálftíma fyrir leik fór okkur að gruna ýmislegt, “ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Völsungs, er Fréttablaðið heyrði í honum. Hann átti von á því að þeim yrði dæmdur sigur.

„Þeir vissu alveg hvar leikurinn var og við vorum ekkert að keyra þetta til gamans, það voru allir klæddir og klárir í leik af okkar hálfu.“

Málið má rekja til leiks liðanna fyrir mánuði síðan þegar dómari leiksins vísaði leikmanni Völsungs ranglega af velli þegar skammt var til leiksloka. Manni fleiri nýtti Huginn sér það til að skora sigurmark en á leikskýrslunni var ekkert minnst á rauða spjaldið og voru mistökin því leiðrétt þar.

Völsungur óskaði eftir því að leikið yrði á ný og fékk það í gegn hjá áfrýjunardómstól KSÍ, þvert á vilja Seyðfirðinga, eftir að aga- og úrskurðarnefnd sambandsins hafði hafnað því.

Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins, kannaðist við póstinn en samkvæmt hans skilningi mátti ekki færa leikinn.

„Við sendum vissulega póst með áhyggjum af leikvellinum en yfirleitt er það dómari sem ákveður þetta. Hins vegar kemur það fram að því verði ekki haggað sem kemur fram í dómsúrskurðinum og þar stóð að leikurinn ætti að fara fram á Seyðisfirði, ekki á Egilsstöðum og sá völlur var heldur ekki í boðlegu standi. KSÍ er einfaldlega að moka yfir drulluna sem þetta mál er,“ sagði Brynjar og hélt áfram:

„Starfsmenn KSÍ gera, ólíkt okkur, mistök í þessu máli. Við gerum hvergi mistök, við spiluðum fótboltaleik og unnum hann og okkur er refsað. Við sættum okkur ekki við það að vera ýtt upp að vegg og þurfa að bera hitann og kostnaðinn af því,“ sagði Brynjar sem sagði að þeir óttuðust hvorki sektir né refsingar af hálfu KSÍ og að þeir hafi ætlað sér að sýna í verki óánægju sína með vinnubrögð sambandsins.

„Við sögðum við KSÍ að þeim væri ekki heimilt að flytja leikinn. Framkvæmdastjóri KSÍ sagði að úrskurðurinn um að það þyrfti að leika á ný væri óhagganlegur og þá ætti leikstaður að vera undir því líka. Við erum reiðubúnir að taka því ef okkur verður refsað af KSÍ. Við ætlum að standa með okkar málstað, ég sjálfur mun aðstoða við að greiða sektina því þetta er einfaldlega prins­ippmál og það er að okkur vegið á margan hátt.“

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að málið verði skoðað nánar og að ákvörðun verði tekin á fundi mótanefndar í dag.

„Það stendur vissulega Seyðisfjarðarvöllur en okkur var tilkynnt að hann væri ekki leikfær og þá tilkynntum við það strax að leikurinn yrði færður. Við fengum engar athugasemdir við því,“ sagði Klara og hélt áfram:

„Það verður skoðað í hvernig þetta fer í samræmi við mótareglur KSÍ, lið sem mæta ekki til leiks tapa leiknum sjálfkrafa 0-3,“ sagði Klara sem vildi ekki tjá sig að svo stöddu hvaða refsing gæti fylgt því fyrir lið að mæta ekki á keppnisstað.




Tengdar fréttir

Dómstóllinn að skapa slæmt fordæmi

Mikil umræða hefur skapast í knattspyrnuheiminum í kringum leik Hugins og Völsungs sem fram fer í 2. deildinni í knattspyrnu karla á Seyðisfjarðarvelli í dag. Mistök dómarans í leik liðanna um miðjan ágúst urðu til þess að liðin þurfa að mætast aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×