Erlent

Comey segir rannsóknina bæði heimskulega og gallaða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
James Comey var forstjóri Bandarísku alríkislögreglunnar FBI þangað til Donald Trump Bandaríkjaforseti rak hann í maí árið 2017.
James Comey var forstjóri Bandarísku alríkislögreglunnar FBI þangað til Donald Trump Bandaríkjaforseti rak hann í maí árið 2017. Getty/Andrew Harrer
James Comey, fyrrverandi forstjóri Bandarísku alríkislögreglunnar FBI, segir rannsókn stofnunarinnar á ásökunum um kynferðisofbeldi á hendur Brett Kavanaugh, dómaraefnis Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til Hæstaréttar, „heimskulega“. Comey gagnrýnir rannsóknina, og þröngan tímaramma sem henni var settur, harðlega í pistli sem birtur var á vef dagblaðsins New York Times í dag.

„Það er heimskulegt að setja alríkislögreglunni tímatakmarkanir. En það er betra að gefa fagmönnum sjö daga til að hafa uppi á staðreyndum en að engin rannsókn fari fram,“ skrifar Comey.

Tilnefning Kavanaugh til Hæstaréttar var samþykkt í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á föstudag. Einnig var ákveðið að alríkislögreglan myndi rannsaka ásakanirnar á hendur Kavanaugh. Rannsóknin má þó aðeins taka viku og verður „takmörkuð að umfangi“, að beiðni Bandaríkjaforseta.

Christine Blasey Ford og Brett Kavanaugh báru bæði vitni frammi fyrir dómsmálanefndinni á föstudag.Getty/Matt McClain/Poo
Comey segir í pistli sínum að greinilegt sé að hvorki Repúblikanar né Demókratar vilji komast að hinu sanna í málinu.

„Ef sannleikur væri eina markmiðið, þá væri engin klukka og dómsmálanefndin hefði ekki beðið um rannsóknina eftir að hún samþykkti dómaraefnið. Þess í stað virðist sem markmið Repúblikana sé að geta sagt að rannsókn hafi verið gerð og hún hafi ekki fengið þá til að skipta um skoðun, á meðan Demókratar vonast eftir sönnunargögnum sem sýna fram á refsiverða hegðun frambjóðandans.“

Þá segir hann að þrátt fyrir að ferlið allt sé „verulega gallað“ sé alríkislögreglan til í slaginn.

Þrjár konur hafa sakað Brett Kavanaugh um kynferðisofbeldi. Greint var frá því í gær að rannsókn alríkislögreglunnar á ásökununum væri hafin en aðeins verður rætt við tvær kvennanna, Christine Blasey Ford og Deboruh Ramirez.

James Comey gegndi stöðu forstjóra alríkislögreglunnar þangað til Trump rak hann í maí í fyrra. Þeir hafa síðan eldað grátt silfur saman, ekki síst eftir útgáfu bókar þess fyrrnefnda í apríl síðastliðnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×