Eins og Vísir greindi frá í gær voru Kristni gerðir úrslitakostir af hálfu Sigríðar Elínar Guðlaugsdóttur mannauðsstjóra HR hvar hann hefur starfað sem kennari við tækni- og verkfræðibraut: Annað hvort segði hann upp störfum eða hann yrði rekinn. Þetta var í kjölfar ummæla sem Kristinn lét falla, í Facebook-hópi sem nefnist Karlmennskuspjallið og seinna var svo vakin athygli á í DV. Þar sagði hann konur troða sér inn á vinnustaði þar sem karlmenn vinni. Konur eyðilegðu vinnustaðina því karlmenn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“.
Búið að fjarlægja Kristinn af starfsmannalista
Að sögn Kristins hefur uppsagnarbréfið ekki verið undirritað en þegar Vísir fletti upp starfsmannalista HR þá er búið að fjarlægja nafn Kristins þaðan.
„Því miður er þetta ekki nógu gott né vel að þessu staðið af hálfu skólans. Gengið á rétt minn. Ég fæ ekki njóta tjáningarfrelsis né fæ ég tækifæri til að bera hönd yfir höfðu mér. Mér var fyrirvarlaust sagt upp og án skýringa. Ekki búið að undirrita þetta. Þar var mér sagt upp og útilokað að skilja hvað þeim gengur til hjá skólanum,“ segir Kristinn. „En, nú er ég líklega búinn að segja of mikið.“
Sérkennilegur afmælisdagur
Kristinn varð 64 ára gamall í gær og hann segir þetta hafa verið sérkennilegan afmælisdag, enginn slái honum út. Illt sér fyrir sig að eiga þrjú ár í eftirlaunaaldur og vandséð að hann finni vinnu kominn á þennan aldur. Þetta hefur verið rússibani fyrir hann og of stór pakki.
Minnir í mörgu á mál Snorra í Betel
Óhætt er að segja að málið hafi vakið mikla athygli og meðal þeirra sem hafa tjáðs sig um það og furðað sig á fyrirvararlausri brottvikningu Kristins, og tjáð það á Facebook, eru Páll Magnússon alþingismaður og lögmennirnir Ómar R. Valdimarsson, sem telur HR úti á túni í málinu og vonast til að það verði afgreitt fyrir dómsstólum, sem og Einar Gautur Steingrímsson.Einar Gautur var einmitt verjandi Snorra Óskarssonar sem vann mál gegn Akureyrarbæ eftir að hafa verið rekinn frá frá kennslu þar í bæ í máli sem í mörgu er hliðstætt máli Kristins. Vísir spurði Einar nánar út í það.
„Spurning hvort einkaaðilar geti leyft sér meira en opinberir aðilar. Þær pælingar eru í deiglunni í hinum stóra heimi. Er ekki alveg inni í þeim. Síðan kann kjarasamningur við kennara að taka á þessu og mögulega negla skólann,“ segir Einar Gautur sem hefur ekki náð að setja sig nægjanlega vel inní málið til að tjá sig um það fyrirvaralaust. En Snorri taldist opinber starfsmaður þegar hann var rekinn en Kristinn ekki, þar sem Háskóli Reykjavíkur skilgreinist sem einkaskóli.