Handbolti

Aron lék í sigri á Evrópumeisturunum | Margir gerðu það gott í Meistaradeildinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron í leik með Barcelona.
Aron í leik með Barcelona. vísir/getty
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk er Barcelona vann átta marka sigur á Montpellier, 35-27, í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag.

Montpellier eru ríkjandi Evrópumeistararar svo ris sigur hjá Aroni og félögum en þeir voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 18-13.

Barcelona er með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina í riðlinum en Montpellier í vandræðum - með fjögur töp í fyrstu fjórum leikjunum.

Alexander Petersson skoraði sjö mörk fyrir Rhein-Neckar Löwen og Guðjón Valur Sigurðsson sex er Rhein-Neckar Löwen tapaði fyrir HC Vardar, 29-27, í sama riðli.

Löwen var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13, en gekk illa að skora í síðari hálfleik. Þeir eru með fjögur stig eftir fyrstu fjóra leikina í riðlinum.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk úr fimm skotum er Pick Szeged vann átta marka sigur á gamla stórveldinu Cejle Lasko, 32-27.

Pick er með fullt hús stiga, átta stig, eftir fyrstu fjóra leikina í riðlinum en Cejle er í næst neðsta sætinu með tvö stig.

Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði sjö mörk og Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt er Kristianstad tapaði með tveimur mörkum, 33-31, fyrir Vive Kielce.

Kristianstad er án stiga í A-riðlinum en þeir eru í afar sterkum riðli. Vive er í öðru sæti riðilsins, með jafn mörg stig og Barcelona.

Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk og Janus Daði Smárason fjögur er Álaborg vann tveggja marka sigur, 31-29, í EHF-bikarnum er liðin mættust í Danmörku í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×