Handbolti

Selfoss getur mætt stórliðum handboltans í næstu umferð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrekur vonast til að mæta Kiel í næstu umferð.
Patrekur vonast til að mæta Kiel í næstu umferð. Fréttablaðið/eyþór
Selfoss tryggði sér sæti í 3. umferð EHF-bikars karla í handbolta með 32-26 sigri á Riko Ribn­ica, toppliðinu í Slóveníu, á laugardaginn. Selfoss tapaði fyrri leiknum ytra, 30-27, en vann einvígið 59-56.

Á sama tíma féllu FH og ÍBV úr leik í sömu keppni og er Evrópuævintýri þeirra því lokið þetta árið.

Hafnfirðingar mættu portúgalska liðinu Benfica ytra tvisvar um helgina. FH-ingar seldu heimaleikjaréttinn til Benfica og fóru báðir leikirnir fram í Portúgal.

FH lék vel í sóknarleiknum í báðum leikjunum gegn Benfica um helgina en öflugur sóknarleikur Portúgalana reyndist hausverkur sem FH tókst ekki að leysa.

ÍBV tók eins marka forskot til Frakklands þar sem þeir mættu liði

Pays d’Aix undir stjórn frönsku goðsagnarinnar Jerome Fernandez. Eyjamönnum tókst að halda í við Frakkana framan af en öflugur sprettur franska félagsins undir lok fyrri hálfleiks og í upphafi þess seinni gerði út um vonir ÍBV.

Selfoss verður því eina íslenska liðið þegar dregið verður í næstu umferð Að sögn Patreks Jóhannessonar, þjálfara Selfoss, var lykillinn að sigri þeirra öflug framliggjandi vörn sem kom gestunum í opna skjöldu.

„Það er svolítið síðan við í þjálfarateyminu ákváðum að spila 3-3 vörn á þá hérna heima. Það sló þá aðeins út af laginu og það kom mér á óvart að þeir skyldu ekki spila með aukamann í sókninni,“ sagði Patrekur í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn í Hleðsluhöllinni á laugardaginn.

Selfyssingar leiddu allan leikinn en Slóvenarnir héngu í skottinu á þeim lengi vel. Riko Ribnica minnkaði muninn í fjögur mörk, 22-18, þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Þá tók Patrekur leikhlé og eftir það skoraði Selfoss tvö mörk í röð og komst aftur í lykilstöðu.

Liðsheildin var sterk hjá Selfossi í leiknum í fyrradag. Markaskorið dreifðist vel, vinnslan í vörninni var til fyrirmyndar og markverðirnir, Pawel Kiepulski og Sölvi Ólafsson, voru góðir. Kiepulski varði vel í fyrri hálfleik en náði sér ekki á strik í byrjun þess seinni. Þá kom Sölvi inn á og varði sjö af þeim 17 skotum sem hann fékk á sig (41%) það sem eftir lifði leiks.

„Við vorum hættulegir í öllum stöðum,“ sagði Patrekur. „Það áttu allir góðan leik og enginn sem var út úr kortinu.“

Í næstu umferð EHF-bikarsins eru stórlið eins og Kiel, Magdeburg, Aalborg og Füchse Berlin í pottinum.

„Ég var búinn að segja við vin minn Viktor Szilágyi [íþróttastjóra Kiel] að við myndum dragast á móti Kiel. Við vorum búnir að tala um það fyrir þó nokkru. Það yrði skemmtilegt,“ sagði Patrekur og glotti. Þeir Szilágyi þekkjast vel, spiluðu saman hjá TUSEM Essen og Patrekur þjálfaði Szilágyi svo í austurríska landsliðinu.


Tengdar fréttir

Patrekur: Frábær auglýsing fyrir Selfoss

„Þetta var frábært. Hvernig við komum inn í leikinn var flott hjá strákunum. Að fá á sig tíu mörk í einum hálfleik og þar af 4-5 hraðaupphlaup, frábær vörn. Þetta var frábær auglýsing fyrir Selfoss.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×