Handbolti

Ómar Ingi: Pæli ekkert í pressunni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon.
Landsliðsmaðurinn Ómar Ingi Magnússon skipti frá Århus yfir til Álaborgar síðastliðið sumar og hefur slegið í gegn hjá Álaborgarliðinu.

Hann er næststoðsendingahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar og einnig á meðal tíu markahæstu leikmannanna.

„Það hefur gengið vel og er virkilega ánægður þarna. Vonandi heldur áfram að ganga svona vel,“ segir Ómar Ingi hógvær en hver er helsti munurinn á félögunum tveimur?

„Þetta er aðeins stærra félag og öll umgjörð meiri en Árósum. Meiri alvarleiki og sigurvilji. Það er aðeins meiri pressa en ég pæli ekkert í því. Það er þannig ef ég pæli í því en það fer alveg fram hjá mér. Ég bara spila minn leik.“

Selfyssingurinn verður í eldlínunni með landsliðinu á morgun er það hefur leik í undankeppni EM. Þá kemur Grikkland í heimsókn í Laugardalshöllina.

„Ég veit ekki mikið um Grikkina en við munum læra meira um liðið er nær dregur leik,“ segir Ómar Ingi og bætir við að það sé ekkert vandamál að gíra sig upp í leiki þar sem fastlega er búist við því að íslenska liðið vinni stórsigur.

„Við mætum klárir sama hvað. Þetta eru mikilvægir leikir sem telja í undankeppninni og það þarf að gera þetta af krafti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×