Tæknirisinn Google hefur heitið því að gera úrbætur á stefnu sinni gagnvart ásökunum um kynferðislega áreitni á vinnustaðnum. Þetta kemur fram í tölvupósti sem forstjóri Google, Sundar Pichai, sendi starfsfólki í dag. Þúsundir starfsmanna Google yfirgáfu vinnustaði sína í byrjun mánaðar til að mótmæla „forkastanlegri framkomu fyrirtækisins við konur.“
Í tölvupósti Pichai segir að Google muni ekki lengur leiða ásakanir um kynferðislega áreitni til lykta með samningaviðræðunum. Þá heitir hann því einnig að rannsóknarferli í slíkum málum innan fyrirtækisins verði endurskoðað og að komið verði á stuðningsneti fyrir þolendur.
Einhverjir hafa þó bent á að með þessu komi Google ekki nægilega vel til móts við kröfur mótmælenda. Til að mynda hafi ekki verið tekið á kynbundnum launamuni innan fyrirtækisins.
Mótmælaaðgerðirnar í byrjun nóvember eru einna helst raktar til nýlegra vendinga í umræðu um bága stöðu kvenna í tæknigeiranum. Kornið sem fyllti mælinn var umfjöllun New York Times um Andy Rubin, sem bjó til Android-stýrikerfið, en hann fékk 90 milljónir dala þegar hann var rekinn frá Google árið 2014 vegna ásakana um kynferðisbrot.
Google lofar bót og betrun eftir að starfsmenn gengu út

Tengdar fréttir

Starfsmönnum Google var ofboðið
Efnt var til mótmæla á skrifstofum Google víða um heim í gær og gengu starfsmenn út af vinnustaðnum vegna kerfisbundinna kynþáttafordóma og kynbundins ofbeldis. Starfsfólk krefst umbóta.

Starfsmenn Google gengu út
Starfsmenn tæknirisans Google hafa yfirgefið vinnustaði sína í morgun í mótmælaskyni.

Google hefur rekið 48 á tveimur árum vegna áreitni
Þar á meðal voru þrettán háttsettir stjórnendur. Í bréfi til starfsmanna fyrirtækisins sem birt var í dag sagði Sundar Pichai, forstjóri Google, að fyrirtækið tæki hörðum tökum á áreitni.