Erlent

Góðar fréttir fyrir Repúblikana

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Það ræðst hver fer með völdin í bandaríska þinghúsinu í kosningunum sem fara fram á þriðjudag.
Það ræðst hver fer með völdin í bandaríska þinghúsinu í kosningunum sem fara fram á þriðjudag. Vísir/Getty
Alls voru 250.000 ný störf sköpuð í Bandaríkjunum í síðasta mánuði, atvinnuleysi mældist 3,7 prósent og er það lægsta í hálfa öld og laun hækkuðu um 3,1 prósent á milli mánaða, hafa ekki hækkað meira í tæpan áratug. Þetta kom fram í skýrslu sem vinnumálastofnun Bandaríkjanna birti í gær.

Skýrslan kemur á besta tíma fyrir Repúblikana enda eru nú ekki nema þrír dagar þangað til Bandaríkjamenn kjósa til beggja deilda þingsins, til ríkisþinga, ríkisstjóra og ýmislegs annars. Á fjölmörgum stöðum er mjótt á munum á milli frambjóðenda Repúblikana og Demókrata og geta Repúblikanar því stært sig af efnahagsmálunum enda í meirihluta í báðum deildum og með Hvíta húsið sömuleiðis.

Samkvæmt könnun sem Pew Research birti fyrir um mánuði eru efnahagsmálin ofarlega í huga kjósenda. Alls sögðu 74 prósent kjósenda að þau skiptu þá afar miklu máli. Einungis tvö mál skoruðu hærra, heilbrigðismál með 75 prósent og skipan dómara í hæstarétt með 76 prósent. Vert er að taka fram að tilnefning Bretts Kavanaugh var fyrir þinginu þegar könnunin var gerð og gæti það skýrt þann mikla fjölda sem nefndi skipan dómara.

En þótt staða efnahagsmála hafi verið með ágætum að undanförnu virðist það ekki enn hafa skilað sér í auknum stuðningi við Donald Trump forseta.

Samkvæmt vegnu meðaltali skoðanakannana sem FiveThirtyEight birti mælist Trump með stuðning 42,1 prósents en 52,9 prósent segjast ekki styðja forsetann.

Til samanburðar studdu 44,7 prósent Barack Obama á sama tíma forsetatíðar hans og ekki nema 42 prósent Ronald Reagan sem þó vann öll ríki nema eitt þegar hann sóttist eftir endurkjöri fyrir rúmlega þrjátíu árum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×