Umtalsverðar tafir urðu á tveimur áætlunarflugferðum WOW air til landsins vegna óhappa í dag. Annars vegar var um að ræða sprungu í rúðu vélar sem fara átti frá Mílanó til Keflavíkur í dag. Þá slóst landgöngubrú í hurð vélar félagsins í Kaupmannahöfn meðan farþegar hennar stigu frá borði og olli því að vélin var ekki metin flughæf. Þetta sagði Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, í samtali við fréttastofu.
Í báðum tilfellum þurfti að senda aðra vél eftir farþegum flugfélagsins. Vélin frá Mílanó, sem upprunalega var áætlað að myndi lenda hérlendis klukkan eitt í dag, lenti á sjöunda tímanum í kvöld. Ráðgert er að hin vélin taki á loft frá Kaupmannahöfn um miðnætti og skili sér til Keflavíkur klukkan rúmlega tvö í nótt.
