Innlent

Bótamál hjúkrunarfræðings fer til Hæstaréttar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Ásta Kristín Andrésdóttir fer með mál sitt fyrir Hæstarétt.
Ásta Kristín Andrésdóttir fer með mál sitt fyrir Hæstarétt. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni Ástu Kristínar Andrésdóttur um áfrýjun dóms Landsréttar sem hafnaði kröfu hennar um skaðabætur frá ríkinu. Skaðabótanna krafðist Ásta eftir að hún var sýknuð af ákæru fyrir manndráp af gáleysi.

Hæstiréttur telur dóm um mál hennar geta haft fordæmisgildi þar sem ekki hefur áður reynt á það bótaákvæði sakamálalaga sem hún reisir kröfu sína á við þær aðstæður sem uppi eru í máli hennar.

Bótakröfuna reisir Ásta meðal annars á því að starfsmenn ríkisins hafi gert mistök við upphaf rannsóknar á andláti sjúklings Ástu, sem leitt hafi til þess að Ásta tók á sig ábyrgðina á andláti sjúklingsins að ósekju.

Lagaákvæðið sem Hæstiréttur telur ekki hafa reynt á í sambærilegum aðstæðum og í máli Ástu fjallar um bótarétt þess sem orðið hefur fyrir ólögmætum aðgerðum lögreglu við rannsókn máls og í kjölfarið verið borinn sökum um refsiverða háttsemi en sýknaður af þeim sakargiftum í endanlegum dómi.

Í rökstuðningi sínum vísar Hæstiréttur til þess að ekki hafi áður reynt á hvort dómar sem féllu áður en ný lög um meðferð sakamála tóku gildi geti enn haft fordæmisgildi. Hæstiréttur fellst á að afstaða dómsins til þess og niðurstaða um skilyrði réttar til skaðabóta og hugsanlega meðábyrgð Ástu sjálfrar geti haft almennt gildi og þar af leiðandi séu efni til að verða við beiðni hennar um áfrýjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×