Handbolti

Stórleikur Ágústs í sigri á meisturunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson lék með FH síðasta vetur
Ágúst Elí Björgvinsson lék með FH síðasta vetur Vísir/Andri Marinó
Íslendingaslagur var í bæði sænsku og dönsku úrvalsdeildunum í kvöld.

Í Svíþjóð vann Sävehof sterkan sigur á meisturum og toppliði Kristianstad 28-24 eftir að hafa verið 16-12 yfir í hálfleik.

Ágúst Elí Björgvinsson átti stórleik og varði 13 bolta í marki Sävehof og var með yfir 50 prósenta markvörslu. Af liðsfélögum hans var Oskar Sunnefeldth bestur með 10 mörk.

Í liði Kristianstad skoraði Ólafur Guðmundsson 3 mörk og Arnar Freyr Arnarsson eitt.

Björgvin Páll Gústavsson og félagar í danska meistaraliðinu Skjern höfðu betur gegn Ribe-Esbjerg 23-20 eftir að hafa verið 9-12 undir í hálfleik.

Björgvin varði tvo bolta í leiknum en Emil Nielsen fékk meiri tíma í rammanum heldur en landsliðsmarkvörðurinn.

Í liði Ribe-Esbjerg skoraði Gunnar Steinn Jónsson þrjú mörk og átti eina stoðsendingu. Rúnar Kárason var í hóp en virðist lítið sem ekkert hafa tekið þátt í leiknum miðað við tölfræðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×