Ef marka má myndir á samfélagsmiðlum var hópurinn sem sést í myndbandinu á ferð hér á landi í lok september. Lesandi sendi inn ábendingu um utanvegaaksturinn eftir að myndband af honum var hlaðið upp á Instagram. Segir í ábendingunni að ferðamaðurinn hafi fyrst birt myndbandið á Instagram-reikningi sínum en síðar eytt því. Sjá má hluta af myndbandinu hér að neðan.
Eins og sjá má er utanvegaaksturinn einstaklega grófur en ökumaður bílsins spólar fram og til baka í mosa, líklega á Suðurlandi ef marka má myndir af ferðalagi hópsins.
„Þetta er til háborinnar skammmar og mér þótti þetta mjög leiðinlegt,“ segir Sigurður í samtali við Vísi en hann hafði þá séð fréttir af utanvegaakstrinum. Hann segir að fyrirtækið leggi mikla áherslu á að fræða þá sem taki bíla á leigu hjá þeim að utanvegaakstur sé stranglega bannaður hér á landi.
„Við reynum að gera allt sem við getum. Við höfum mjög strangar reglur að fólk keyri ekki utan vegar,“ segir Sigurður sem bætir við að allir þeir sem taki bíl á leigu hjá fyrirtækinu fái upplýsingar þess efnis.
Ógerlegt er þó fyrir bílaleigur að hafa stjórn á þeim sem leigja bíla eftir að út á vegi er komið.
„Ég veit ekki hvað er í höfðinu á þessu fólki þegar það er komið land. Ef ég sæi þessi teikn á fólki þegar ég leigi þeim bíla fengi viðkomandi ekki að leigja bíl,“ segir Sigurður. „Það er bara eins og það grípi þá eitthvað æði.“
Utanvegaakstur varðar sektum eða fangelsien á vef Umhverfisstofnunarsegir að svo virðist sem að slíkur akstur sé vaxandi vandamál hér á landi. Litið sé alvarlegum augum á hann enda geti gáleysislegur akstur valdið skemmdum á náttúrunni sem eru ár eða jafnvel áratugi að ganga til baka.
Í sumar báðust franskir ferðamenn afsökunar á utanvegaakstri í Kerlingarfjöllum. Þurftu ökumennirnir að greiða 200 þúsund krónur í sekt hvor, samtals 400 þúsund.