Ég spurði Gunnar út í af hverju hann hefði ekki farið í að fá styrktarþjálfara með sér í æfingabúðir áður?
„Það er vandmeðfarið að finna styrktarþjálfara fyrir íþróttina. Það er til hellingur af góðum þjálfurum fyrir handbolta og fótbolta. Heima eru ekkert svo margir sem hafa þekkinguna og skilninginn á MMA,“ segir Gunnar en hann er afar ánægður með samstarf sitt við Unnar Helgason styrktarþjálfara.
„Við byrjuðum á að hittast og spjalla saman. Ég fór svo á prufuæfingu hjá honum. Við prófuðum okkur vel áfram áður en við tókum í gikkinn. Ástæðan er sú að ég hef oft verið á þrekæfingum hjá mönnum sem ég hef ekki fílað. Fannst þetta bara vera meira að taka frá hinum æfingunum sem ég er að gera heldur en að gefa mér fyrir þær.“
Vísir er í Toronto og fylgist ítarlega með öllu í aðdraganda UFC 231. Bardagi Gunnars á laugardag er í beinni á Stöð 2 Sport.