Handbolti

Patrekur á leið til Danmerkur?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Patrekur á hliðarlínunni.
Patrekur á hliðarlínunni. vísir/bára
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss og austurríska landsliðsins, gæti hætt sem þjálfari Selfyssinga næsta sumar og tekið við danska liðinu Skjern.

Þessu greinir danska vefsíðan TV2Sport frá en Patrekur er talinn einn þeirra sem kemur til greina í starfið. Samkvæmt heimildum miðilsins hefur hann heimsótt félagið og átt í viðræðum.

Ole Nørgaard og Henrik Kronborg, sem stýra danska liðinu í dag, hafa greint frá því að þeir hætti með liðið næsta sumar og stendur nú leit yfir að eftirmanni þeirra.

Carsten Thygesen, framkvæmdarstjóri Skjern, segir í samtali við miðilinn að hann muni ekki tjá sig um málið en að leitin sé hafin að næsta þjálfara félagsins. Reynt hefur verið að ná tali af Patreki án árangurs.

Skjern, sem varð danskur meistari á síðustu leiktíð, hefur átt erfitt uppdráttar á þessari leiktíð en þeir eru með fjórtán stig eftir fyrstu fjórtán leikina.

Með liðinu leika Íslendingarnir Tandri Már Konráðsson og Björgvin Páll Gústavsson. Tandri Már varð meistari með liðinu á síðustu leiktíð en Björgvin gekk í raðir liðsins í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×