Handbolti

Björgvin: Skýt nú yfirleitt á markið en það datt inn í dag sem betur fer

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Björgvin var frábær í kvöld.
Björgvin var frábær í kvöld. vísir/vilhelm
„Við vorum geggjaðir í dag,“ sagði Björgvin Hólmgeirsson, stórskytta ÍR, eftir sigurinn á Aftureldingu í Olís-deildinni í kvöld.

„Það er langt síðan við höfum náð að smella svona saman í vörn og sókn. Mér fannst við bara geggjaðir í vörn, holningin á okkur var bara geðveikt.“

Stephen Nielsen var að finna sig vel í markinu og segir Björgvin að það hafi hjálpað liðinu.

„Stephen var að taka alla bolta sem hann átti að taka og það er bara uppskrift að góðum leik.“

„Afturelding er búið að vera á besta rólinu í augnablikinu en þetta var klárlega mjög mikilvægt fyrir okkur.“

ÍR hefur verið í vandræðum framan af tímabili en Björgvin segir að sigurinn hafi verið kærkominn.

„Annars hefðum við verið tveimur stigum frá botninum en í staðinn erum við með 11 stig í 6 eða 7 sæti og 8 liða úrslitum í bikar.“

„Þetta er bara fínt veganesti úr því sem komið er, svo fáum við menn úr meiðslum, vonandi og við hlökkum til febrúar.“

Björgvin var funheitur í dag en hann segir að sem betur fer hafi boltinn farið í netið.

„Ég veit það ekki. Ég skýt nú yfirleitt á markið en það datt bara inn í dag, sem betur fer,“ sagði Björgvin að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×