Erlent

Sagan sem breytist sífellt: Segist ekki hafa skipað Cohen að brjóta lög

Samúel Karl Ólason skrifar
Stormy Daniels, Donald Trump, Michael Cohen og Karen McDougal.
Stormy Daniels, Donald Trump, Michael Cohen og Karen McDougal. Vísir/EPA/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, þvertekur fyrir að hafa skipað Michael Cohen, fyrrverandi lögmanni sínum, að brjóta lög. Hann hafi beðið lögmann sinn um að leysa tiltekið verkefni og Cohen hefði átt að þekkja lögin sjálfur sem lögmaður. Klámmyndaleikkonan og leikstjórinn Stormy Daniels, sem heldur því fram að hún hafi sængað hjá Trump nokkrum mánuðum eftir að Melania Trump fæddi yngsta barn forsetans, fékk 130 þúsund dali frá Cohen einungis nokkrum vikum fyrir kosningarnar 2016.

Cohen var í gær, dæmdur í þriggja ára fangelsi, og bendluðu saksóknarar Trump við einn af þeim glæpum sem lögmaðurinn var dæmdur fyrir.

Þá hefur fyrirtækið American Media Incorporated, sem gefur út National Enquirer, viðurkennt að hafa keypt sögu Karen McDougal, Playboy fyrirsætu, um meint framhjáhald Trump og hennar fyrir 150 þúsund dali. Útgefandi National Enquirer er David J. Pecker, vinur Trump til langs tíma og er sagður hafa látið Cohen vita af því að Stormy Daniels ætlaði sér að selja sögu sína til fjölmiðla.

Blaðið keypti réttinn á sögu McDougal og birti hana aldrei. Forsvarmenn blaðið gerðu samkomulag við saksóknara og viðurkenndu að hafa keypt söguna til að hjálpa framboði Trump. Þá samþykktu forsvarsmenn fyrirtækisins að starfa með saksóknurum.

Sjá einnig: Útgefandi götublaðs viðurkennir þagnarkaup til að verja Trump



Í dómsskjölum kemur fram að Pecker hefði hitt Cohen og minnst einn starfsmann framboðs Trump í aðdraganda kosninganna. Útgefandinn stakk upp á því að hann myndi hjálpa framboðinu með því að kaupa réttinn að neikvæðum sögum um Trump og jafnvel nota tengslanet National Enquirer til að benda framboðinu á aðila sem væru að reyna að selja fjölmiðlum slíkar sögur, eins og gert var þegar Daniels reyndi að selja sína sögu.

David Pecker, útgefandi National Enquirer og vinur Trump.AP/Marion Curtis
Þetta fyrirkomulag á að hafa komist á laggirnar tveimur mánuðum áður en Trump tilkynnti framboð sitt.

Þegar Wall Street Journal birti frétt nokkrum dögum fyrir kosningarnar 2016, um greiðslu AMI til McDougal, sögðu forsvarsmenn fyrirtækisins að það væri ekki rétt að National Enuirer væri að kaupa neikvæðar sögur um Trump með því markmiði að koma í veg fyrir birtingu þeirra.

Dylan Howard, ritstjóri National Enquirer, gaf frá sér afgerandi yfirlýsingu í apríl.

„Við birtum eða kæfum ekki fréttir að beiðni stjórnmálamanna. Þó svo að viðkomandi sé forseti Bandaríkjanna.“

Það er nú ljóst að þeir voru að ljúga og hafa þeir játað það við saksóknara.

Cohen var í gær dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar fyrir brot á kosningalögum, skattsvik og að hafa logið að þingnefnd um viðleitni hans til að tryggja byggingu Trump-turnar í Moskvu í aðdraganda kosninganna.

Cohen bendlaði Trump við brot á kosningalögum. Það brot snýr að greiðslunni til Daniels, sem saksóknarar skilgreina sem framlög til framboðs Trump og fer það langt yfir hámarkið sem einstaklingar mega gefa til framboðs stjórnmálamanns, sem er 2.700 dalir.

Í röð tísta nú í dag sagði Trump að hann hefði aldrei skipað Cohen að brjóta lög. Sem lögmaður ætti hann að þekkja lögin. Þá segir hann einnig að í raun hafi þetta ekki verið brot á lögum og að fjöldinn allur af lögfræðingum hafi sagt það. Trump vísaði þó ekki í neinn sérstakan slíkan lögfræðing.

Trump segir Cohen hafa verið dæmdan fyrir ýmis brot sem komi honum ekkert við og að ákærunum um brot á kosningalögum væri ætlað að koma niður á forsetanum og draga úr dómi Cohen.

Sagan breytist og breytist

Svör Trump og Cohen varðandi greiðslurnar til kvennanna og þá sérstaklega til Stormy Daniels hefur tekið stakkaskiptum frá því sögur um greiðsluna litu fyrst dagsins ljós. Fyrst sagði Cohen ekkert til í þessum fregnum og að um hreinar og beinar lygar væri að ræða. Þegar í ljós kom að svo var ekki, sagðist Trump ekkert vita af þeim.

Síðar sagði Cohen að hann hefði greitt Daniels úr eigin vasa og um einföld einkaviðskipti hafi verið að ræða. Trump tók undir það og sagði málið ekki koma sér við á neinn hátt. Svo eftir að í ljós koma að fyrirtæki Trump hafði endurgreitt Cohen og rúmlega það breyttist sagan enn á ný. Nú segir forsetinn að um einföld einkaviðskipti hafi verið að ræða.

Trump hefur áður haldið því fram að greiðslan til Daniels hafi ekki verið framlag til kosningasjóða hans þar sem markmiðið var ekki að hjálpa framboði hans. Þess í stað hafi markmiðið verið að verja fjölskyldu hans gegn vandræðalegum ásökunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×