Hlutabréf í Icelandair Group hafa hækkað um tæp 14 prósent þegar þetta er skrifað í 244 milljóna króna viðskiptum. Hækkun bréfanna var hafin áður en tilkynnt var um hópuppsögn hjá helsta keppinaut félagsins, WOW air, sem sagði upp 111 starfsmönnum í morgun.
Þá verða samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn ekki endurnýjaðir að svo stöddu.
Miklar sveiflur hafa verið undanfarið á hlutabréfaverði Icelandair en í byrjun nóvember var tilkynnt að félagið hygðist kaupa WOW air.
Tilkynnt var um kaupin þann 5. nóvember og ellefu dögum síðar var verð hlutabréfanna komið upp í 12 krónur á hlut. Þremur dögum áður en tilkynnt var um kaupin stóð verð bréfanna í 7,9 krónum.
Rétt fyrir síðustu mánaðamót var svo tilkynnt að ekkert yrði af kaupunum og lækkuðu bréfin í kjölfarið en verðið á hlut er nú 9,15 krónur.
