Gunnar stimplaði sig aftur inn eftir langa fjarveru frá UFC búrinu og það var mikilvægt fyrir framtíðarplönin hans að vinna góðan sigur um helgina.
Þetta var fyrsti bardagi Gunnars í 510 daga eða síðan að hann tapaði á móti Santiago Ponzinibbio í Glasgow 16. júlí 2017. Santiago Ponzinibbio svindlaði í þeim bardaga þegar hann potaði í augun á Gunnari. Aftur var reynt að svindla á Gunnari núna en hann komst í gegnum það og vann sannfærandi sigur.
Nú er stóra spurninginn hvar Gunnar Nelson keppir næst innan UFC. Í viðtali við MMA Fréttir viðrar Gunnar þá hugmynd sína um að keppa næst á bardagakvöldi í London í mars.
Gunnar kemur þó ekki alveg heill út úr þessum bardaga við Alex Oliveira eða öllu heldur úr aðdraganda hans. „Hann þarf þó fyrst að fara í myndatöku á hnénu en Gunnar varð fyrir smá meiðslum á hnénu í aðdraganda bardagans. Gunnar telur þó að þetta sé ekki neitt stórmál en ætlar að sjá hvað þetta er,“ segir í frétt á mmafrettir.is.
Síðustu tveir bardagar Gunnars hafa verið í Toronto í Kanada og í Glasgow í Skotlandi en í millitíðinni átti hann að keppa á móti Neil Magny í Liverpool í Englandi. Gunnar meiddist á hné í aðdraganda þessa bardaga og þurfti að fara í aðgerð. Bardaginn á móti Alex Oliveira var því eini bardagi Gunnars á árinu 2018.
Íslenski bardagakappinn á góðar minningar frá bardögum sínum í London og það er því ekkert skrýtið að óskastaða hans sé að berjast aftur þar.
Gunnar Nelson keppti síðast í London þegar hann vann Alan Jouban 18. mars 2017. Hann vann þar líka á móti þeim Omari Akhmedov (8. mars 2014) og Jorge Santiago (16. febrúar 2013). Gunnar Nelson hefur þannig unnið alla þrjá UFC-bardaga sína í London.
Allt viðtalið við Gunnar Nelson í MMAfréttum má sjá hér fyrir neðan.