Viðskipti innlent

Hafnar því að upplýsingagjöf hafi verið léleg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sveinn Margeirsson, fyrrverandi forstjóri Matís.
Sveinn Margeirsson, fyrrverandi forstjóri Matís.
Sveinn Margeirsson, sem rekinn var sem forstjóri Matís fyrir helgi, ætlar ekki að sitja undir því að upplýsingagjöf hans til stjórnar hafi verið ábótavant. Sjöfn Sigurgísladóttir, stjórnarformaður Matís, sagði í Bylgjufréttum á föstudaginn að trúnaðarbrest sem vísað hafði verið til vegna uppsagnar Sveins mætti rekja til lélegrar upplýsingagjafar. Hann hafnar því.

„Þeir sem þekkja til mín vita að ég legg mikið upp úr hagnýtingu upplýsinga. Doktorsritgerð mín snerist um hagnýtingu upplýsinga í virðiskeðju sjávarafurða. Við hjónin notuðum opinberar upplýsingar til að fletta ofan af Exeter Holdings málinu árið 2009. Samstarf Matís við Advania um þróun Blockchain lausnar í því augnamiði að miðla upplýsingum bænda um lambakjöt til neytenda var mín hugmynd. Þannig mætti áfram telja,“ segir Sveinn í færslu á Facebook.

Sveinn vildi sjálfur ekki skýra ástæðurnar sem honum voru gefnar vegna uppsagnarinnar í samtali við Vísi á fimmtudaginn. Vísaði hann á Sjöfn sem hafði sjálf ekki viljað skýra trúnaðarbrestinn í samtali við Vísi á fimmtudag. Á föstudag vísaði hún svo til upplýsingagjafar.

Sveinn segir auk þess ekki rétt að honum hafi verið sagt upp símleiðis. Hið rétta sé að uppsögnin hafi borist í tölvupósti. Sveinn var forstjóri Matís í átta ár.

„Það skal tekið fram að ég hef ekki hugsað mér að elta ólar við einstök ummæli Sjafnar Sigurgísladóttur varðandi ákvörðun stjórnar Matís um að nýta uppsagnarákvæði ráðningarsamnings míns. Ákvörðunin er tekin og skynsamlegast að horfa til framtíðar.“






Tengdar fréttir

Enginn trúnaðarbrestur að mati Sveins

Sveinn Margeirsson, sem í gær var sagt upp störfum sem forstjóri Matís eftir átta ár í starfi, er ekki sammála formanni stjórnar að trúnaðarbrestur hafi orðið sem hafi verið tilefni til uppsagnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×