Pepsi-deildarlið FH færði stuðningsmönnum sínum síðbúna en ansi veglega jólagjöf í dag þegar að Björn Daníel Sverrisson samdi við uppeldisfélagið á nýjan leik en hann kemur til FH frá AGF í Danmörku.
Björn Daníel gerir fjögurra ára samning við FH en hann var kynntur til leiks á blaðamannafundi í Kaplakrika í dag:
Björn er þriðji leikmaðurinn sem að FH fær til sín í vetur. Áður voru komnir miðverðirnir Brynjar Ásgeir Guðmundsson og Guðmann Þórisson sem báðir eru öllum hnútum kunnugir í Krikanum.
FH hafði betur í harðri samkeppni við Val um Björn Daníel sem var kosinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar árið 2013 en hann skoraði þá níu mörk í 21 leik er FH hafnaði í öðru sæti á eftir Íslandsmeisturum KR.
Björn Daníel kom 17 ára inn í FH-liðið í efstu deild árið 2008 og v orðinn fastamaður ári síðar. Hann á að baki 108 leiki fyrir FH í efstu deild og 32 mörk en hann varð Íslandsmeistari með liðinu þrisvar sinnum og bikarmeistari einu sinni áður en hann fór út í atvinnumennskuna.
Miðjumaðurinn magnaði var seldur til Viking í Stavangri þar sem að hann skoraði ellefu mörk í 71 leik í norsku úrvalsdeildinni en þaðan fór hann til AGF í Danmörku þar sem hann hefur lítið fengið að spila upp á síðkastið.
Björn Daníel var lánaður í fyrra til Vejle í dönsku 1. deildinni en AGF leysti hann undan samningi sínum við félagið fyrr í desember en hann átti að renna út næsta sumar.
FH hafnaði í fimmta sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð og verður ekki í Evrópukeppni í fyrsta sinn í 16 ár.
