Fótbolti

Borgarstjórinn í Mílanó biður Koulibaly afsökunar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stuðningsmenn Inter höguðu sér óboðlega í gær
Stuðningsmenn Inter höguðu sér óboðlega í gær vísir/getty
Borgarstjórinn í Mílanó hefur beðið Kalidou Koulibaly afsökunar fyrir hönd borgarinnar en varnarmaðurinn varð fyrir kynþáttaníði á meðan leik Inter og Napólí stóð í gær.

Stuðningsmenn Inter beindu apahljóðum af Koulibaly, sem er einn eftirsóttasti varnarmaður heims í dag. Carlo Ancelotti, þjálfari Napólí, sagðist í þrígang hafa beðið dómarann um að stöðva leikinn en fengið neitun.

„Ég fór á völlinn í gær. Ég fékk ástríðuna fyrir Inter frá föður mínum og ég fagnaði sigrinum, en ég kom heim niðurbrotinn,“ sagði borgarstjórinn Beppe Sala.

„Þetta var vanvirðing við alvöru íþróttarmann sem er stoltur af húðlit sínum. Inter tekur á málinu eins og þeim finnst réttast en ég væri til í að sjá Kwadwo Asamoah fá fyrirliðabandið í næsta leik.“

„Í millitíðinni vil ég biðja Kalidou Koulibaly afsökunar, bæði í mínu nafni og í nafni Mílanóborgar.“

Inter vann leikinn 1-0 eftir mark frá varamanninum Lautaro Martinez í uppbótartíma.

Fyrr í dag var svo greint frá því að forráðamenn Seria A hefðu ákveðið að Inter þyrfti að leika næstu tvo heimaleiki sína fyrir luktum dyrum vegna atviksins. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×