Mannskæð sjóslys voru algeng hér á árum áður og í hverjum mánuði, stundum vikulega, mátti sjá og heyra umfjallanir um slík slys í fjölmiðlum. En á árunum 1979 til 1988 voru hundrað fjörutíu og tvö banaslys á sjó. Áratug síðar helmingi færri slík slys og á árunum 1999 til 2008 voru þau tuttugu og þrjú. Síðasta áratug voru þau aftur helmingi færri en áratuginn á undan eða ellefu talsins.
Árin 2017 og 2018 hefur ekkert banaslys orðið á sjó. Valmundur Valmundarsson formaður Sjómannasambands Íslands segir algjöra umbyltingu hafa átt sér stað.
„Þetta er frábær árangur og mig langar að nefna eitt dæmi. Það muna allir þegar það gaus í heimaey árið 1973 en færri vita að það ár fórust 34 sjómenn á Íslandsmiðum. Miðað við mannfjöldann í dag þá væri þetta eins og að 60 manns hefðu farist,“ segir Valmundur.

„Þá var manntjónið talinn ákveðinn svona fórnarkostnaður í þessu starfi. En nú fá menn fræðslu og læra að forðast hættuna og vinna með hana í stað þess að taka áhættu þegar eitthvað alvarlegt gerist,“ segir hann.
Þórhildur Elín Elínardóttir samskiptastjóri Samgöngustofu segir ekki sjálfsagt hjá fiskveiðiþjóð að ná slíkum árangri.
„Eftir því sem við best vitum hefur þetta ekki gerst áður frá upphafi Íslandsbyggðar. Þessi árangur er farinn að vekja athygli á alþjóðavísu. Þetta er ekki árangur sem önnur fiskveiðiþjóð í heiminum getur státað af í sama mæli þannig að við erum alveg gríðarlega ánægð með þetta,“ segir Þórhildur.