Íslendingar láta sig málið talsvert varða því fjöldi umsagna í samráðsgátt stjórnarráðsins eru nú 1092 talsins sem er metfjöldi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá stöðu málsins í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis.
Katrín segir að afar skiptar skoðanir séu á meðal Íslendinga um hugsanlega breytingu á klukkunni. Málið verður í umsagnarferli í tvo mánuði og er ætlunin að yfirvega umsagnirnar og gera tillögu um framhald málsins þegar líður fram á vor og sumar að sögn Katrínar.
Hún segir að málið sé þess eðlis að mikilvægt hafi verið að hafa landsmenn með í ráðum.
„Við gáfum þessu rúman tíma. Málið er bara búið að vera viku í umsagnarferli og þessar þúsund umsagnir sem hafa borist á þeim tíma – sem segir mér nú það sem mér finnst best við Íslendinga – að þeir láta ekki á sér standa þegar maður kallar eftir sjónarmiðum. Þá mætir fólk og lætur í sér heyra.“
Landsmenn hafa úr þremur kostum að ráða:
1. Óbreytt staða, klukkan áfram 1 klst. Fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu, en með fræðslu er fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.
2. Klukkunni seinkað um 1 klst. Frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins (dæmi: kl. 11:00 verður kl. 10 eftir breytingu).
3. Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefja starfsemi seinna á morgnana.
Innt eftir sinni skoðun á málinu segist Katrín enn liggja undir feldi þrátt fyrir að hún hafi hingað til, að eigin sögn, verið tiltölulega íhaldsöm þegar málið hefur verið til umræðu í þinginu.
„En auðvitað hlýt ég að horfa til þess þegar við erum að sjá fleiri og fleiri vísindamenn stíga fram og ræða þessi sjónar mið sem tengjast morgunbirtunni,“ segir Katrín og tekur mið af lýðheilsufræðilegum sjónarmiðum og bætir við að taka þurfti tillit til líkamsklukkunar og svefnrannsókna.
Í spilaranum hér að neðan er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.