Viðskipti innlent

Crossfit kempa gengur til liðs við Völku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leifur Geir er kominn á bólakaf í hátæknilausnir fyrir fiskvinnslufyrirtæki.
Leifur Geir er kominn á bólakaf í hátæknilausnir fyrir fiskvinnslufyrirtæki.
Leifur Geir Hafsteinsson hefur verið ráðinn í nýtt starf mannauðsstjóra hjá Völku. Hann hefur víðtæka reynslu bæði sem stjórnandi og sérfræðingur í stjórnun og mannauðsstjórnun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Völku sem er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun og markaðssetningu á tækjum og hugbúnaði fyrirfiskvinnslur.

Undanfarin fimm ár hefur Leifur Geir starfaði sem aðstoðarframkvæmdastjóri Hagvangs en hefur jafnframt starfað sjálfstætt sem ráðgjafi í gegnum eigið félag. 

Leifur Geir lauk doktorsgráðu í vinnu- og skipulagssálfræði frá Virginia Tech háskólanum auk BSc gráðu í tæknilegri eðlisfræði og kennsluréttindanáms frá Háskóla Íslands. Í doktorsnáminu lagði Leifur Geir áherslu á hvatningu í starfi, markmiðasetningu, notkun sálfræðilegra prófa í ráðningum ásamt aðferðafræði og tölfræðirannsókna.

Hann hóf störf í mannauðsmálum árið 1998 sem starfsmannastjóri frumkvöðlafyrirtækisins Álits ehf., sem var hið fyrsta sinnar tegundar í útvistun tölvureksturs.

Eftir doktorsnám starfaði Leifur Geir sem lektor og dósent í Háskólanum í Reykjavík frá 2004 – 2010 og hefur undanfarin ár kennt námskeið á meistarastigi í vinnusálfræði og mannauðsstjórnun sem stundakennari við skólann.

Leifur Geir stofnaði fyrstu Crossfit stöð Íslands í Sporthúsinu árið 2008 og átti ríkan þátt í uppbyggingu Crossfit íþróttarinnar á Íslandi. Eftir farsæla uppbyggingu var stöðin seld eigendum Sporthússins sem reka hana enn í dag.

Á sínum yngri árum lék Leifur Geir fótbolta með meistaraflokki ÍBV og Stjörnunnar og skoraði 33 mörk í 101 leik í efstu deild. Hann lauk ferlinum með Íslandsmeistaratitli með ÍBV 1997.

„Það er mikið gleðiefni fyrir Völku að fá Leif Geir í okkar góða hóp starfsmanna. Valka hefur vaxið hratt síðustu árin og eru starfsmenn fyrirtækisins nú um áttatíu. Stefnt er að því að fjölga starfsmönnum enn frekar á komandi misserum og því mikill happafengur að fá jafn reynda manneskju í það verkefni og Leif Geir. Ég býð hann því hjartanlega velkominn í hópinn,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.


Tengdar fréttir

"Crossfit ekki svo galið“

Eigandi og yfirþjálfari í CrossFit Sport í Sporthúsinu segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu og Vísi að crossfit sé ekki svo galin líkamsþjálfun. Crossfit hefur verið mikið milli tannanna á fólki að undanförnu og m.a. hlotið talsverða gagnrýni hjá íþróttafræðingum. Greinin er innlegg í þá umræðu.

Ívar og Kjartan til Völku

Ívar Meyvantsson og Kjartan Einarsson hafa verið ráðnir sem stjórnendur hjá hátæknifyrirtækinu Völku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×