Framherjinn Arnór Gauti Ragnarsson hefur fært sig um set og mun spila með Fylki í Pepsideild karla í sumar.
Arnór Gauti er uppalinn Mosfellingur en hefur spilað með ÍBV, Selfossi og Breiðabliki. Hann spilaði 21 leik í deild og bikar með Blikum síðasta sumar og annað af tveimur mörkum hans var sigurmark gegn Val í uppbótartíma í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
„Það eru sjónarsviptir af Arnóri Gauta. Hann er vinsæll hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Breiðabliks enda gefur hann alltaf 100% í alla leiki sem hann spilar. Blikar óska Arnóri Gauta góðs gengis og vona að hann eigi eftir að finna sig vel í Árbænum á komandi tímabili,“ segir í tilkynningu Breiðabliks á Facebook-síðu félagsins í dag.
Arnór skrifaði undir þriggja ára samning við Fylki. Hann á að baki 72 meistaraflokksleiki á Íslandi sem og 6 leiki með yngri landsliðum Íslands en hann er fæddur árið 1997.
Fylkir var nýliði í Pepsideildinni síðasta sumar og endaði í áttunda sæti deildarinnar eftir að hafa verið í fallbaráttu allt tímabilið.
Arnór Gauti genginn til liðs við Fylki
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Mest lesið





Magnús Orri tekur við formannsstólnum af Páli
Íslenski boltinn




„Þú ert að tengja þetta við Rashford“
Enski boltinn
