Innlent

Ók ölvaður undir stýri á kyrrstæðar bifreiðar

Birgir Olgeirsson skrifar
Um áttatíu mál skráð hjá lögreglu í nótt.
Um áttatíu mál skráð hjá lögreglu í nótt. Vísir/Vilhelm
Rúmlega áttatíu mál voru skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 19 í gærkvöldi og til hálf sjö í morgun.

Lögreglan handtók tvo karlmenn á þrítugsaldri í hverfi 105 grunaða um sölu og dreifingu fíkniefna. Þetta átti sér stað um klukkan ellefu í gærkvöldi og voru mennirnir vistaðir í fangageymslu.

Lögreglan handtók erlendan karlmann í hverfi 210 grunaðan um þjófnað í verslun um klukkan átta í gærkvöldi. Maðurinn framvísaði einnig fölsuðum skilríkjum.

Rétt eftir miðnætti var tilkynnt um ölvaðan mann sem hafði skemmt skilti á skyndibitastað í miðbænum og síðan hlaupið í burtu. Lögreglan fann hann skömmu síðar og handtók hann en vegna ástands og dólgsláta var hann vistaður í fangageymslu.

Á þriðja tímanum í nótt var ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Áður hafði verið tilkynnt um að hann hefði ekið á brott eftir árekstur við kyrrstæðar bifreiðar. Skemmdir á þeim bifreiðum voru töluverðar en maðurinn var vistaður í fangageymslu.

Alls voru átta ökumenn stöðvaðir í nótt grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×