Líneik Anna vakti máls á loðnuleit á Alþingi í morgun. Þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnunin og sjávarútvegsfyrirtæki hafi leitað um allan sjó finnist hún ekki.
Heimili tapa mikilvægum tekjum
Líneik segir að loðnubrestur muni hafa gífurleg áhrif á uppsjávarfyritæknin og fyrirtæki um land allt sem þjónusta þau. Einstaklingar og heimili muni einnig tapa mikilvægum tekjum. Sveitarfélög séu þegar farin að huga að endurskoðun fjárhagsáætlana og meta fjárhagsleg áhrif loðnubrests fyrir bæjar- og hafnarsjóði.„Áhrifin á ríkissjóð eru einnig mikil en útflutningsverðmæti loðnu námu tæplega 18 milljörðum á árinu 2018, 0,6% af landsframleiðslu. Verðmæti síðustu ár hafa verið á bilinu 15–30 milljarðar, tæp 10% af útflutningsverðmæti sjávarafurða, oft næstmest á eftir þorskinum,“ sagði Líneik Anna í ræðustól Alþingis í morgun.
Fyrsta ár án loðnuveiði frá 1963
Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokki segir að ef engin verði loðnuveiðin verði þetta fyrsta árið frá því að loðnuveiðar hófust 1963 sem engin loðna veiðist við landið.Hún segir það einnig áhyggjuefni að ekki liggi fyrir fiskveiðisamningur við Færeyinga um kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu, og beinir þeim orðum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.