Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Sigurð Ragnar Kristinsson til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar vegna aðildar hans að Skáksambandsmálinu svokallaða.
Dómurinn var kveðinn upp í morgun en hefur ekki verið birtur á vef dómstóla. Fyrst var greint frá niðurstöðu hans á vef Fréttablaðsins.
Tveir aðrir voru ákærðir í málinu, annars vegar Hákon Örn Bergmann sem hlaut tólf mánaða fangelsisdóm og Jóhann Axel Viðarsson sem hlaut níu mánaða fangelsisdóm, en þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir.
Málið varðar innflutning á fimm kílóum af amfetamíni til Íslands frá Spáni í janúar í fyrra.
Fyrstu fréttir af málinu sneru að fíkniefnafundi í húsakynnum Skáksambands Íslands þann 8. janúar í fyrra. Pakki með ætluðum fíkniefnum barst Skáksambandi Íslands þar sem forseti sambandsins veitti honum viðtöku.
Á annan tug sérsveitarmanna komu að aðgerðunum í húsakynnum Skáksambandsins í Faxafeni en enginn handtekinn ef frá er talinn forseti Skáksambandsins. Honum var sleppt um leið og ljóst lá fyrir að hann tengdist málinu ekki á nokkurn hátt.

