Handbolti

Ómar Ingi vann slaginn við Vigni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ómar Ingi Magnússon fann sig ekki á HM en hann leikur við hvern fingur með félagsliði sínu
Ómar Ingi Magnússon fann sig ekki á HM en hann leikur við hvern fingur með félagsliði sínu vísir/getty
Sterkur lokakafli skilaði Íslendingaliði Ribe-Esbjerg jafntefli við Skanderborg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Ómar Ingi Magnússon hafði betur gegn Vigni Svavarssyni í Holstebro.

Staðan var 21-25 fyrir gestina í Skanderborg þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Þá tóku heimamenn sig til og skoruðu síðustu fjögur mörk leiksins og tryggðu sér þar með 25-25 jafntefli.

Gunnar Steinn Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir Ribe-Esbejerg og Rúnar Kárason gerði eitt. Markahæstur var Kasper Kvist með sjö mörk.

Íslendingaslagur var þegar Holstebro tók á móti Álaborg í toppslag. Gestirnir unnu öruggan sjö marka sigur 29-36.

Sebastian Barthold átti algjöran stórleik fyrir Álaborg og skoraði 12 mörk. Ómar Ingi Magnússon skoraði aðeins þrjú mörk sjálfur en hann lagði upp sex fyrir félaga sína.

Vignir Svavarsson skoraði eitt mark fyrir Holsterbro.

Álaborg er aðeins stigi á eftir GOG á toppi deildarinnar en GOG hefur leikið einum leik færra. Með sigrinum jók Álaborg forskot sitt á Holstebro í þriðja sætinu í fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×