Krufning á fjallaljóni sem bandarískur hlaupari kyrkti í síðasta mánuði var ungur hvolpur sem var líklega munaðarlaus. Atvikið vakti heimsathygli en hlauparinn drap fjallaljónið með því að stíga á hálsinn á því þegar það réðst á hann á hlaupaleið í Colorado.
Dýralífseftirlitsmenn í Colorado segja að hvolpurinn hafi verið fjögurra til fimm mánaða gamall og vegið um átján kíló. Dýrið hafi drepist af höggáverka og kyrkingu, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Ekki var hægt að staðfesta kyn dýrsins þar sem önnur dýr höfð gætt sér á hræinu áður en landverðir komu á staðinn. Líklegast er þó talið að hvolpurinn hafi verið karldýr.
Travis Kauffman segist hafa verið að skokka á þekktri hlaupaleið norðvestur af Denver þegar hann heyrði þrusk í furunálum. Þegar hann sneri sér við hafi hann staðið augliti til auglitis við fjallaljón. Þrátt fyrir að hann hafði reynt að baða út örmum og öskra hafi ljónið stokkið á hann.
Fjallaljónið læsti skoltum sínum í höndina á Kauffman og veitti honum skurði með klónum á andliti og hálsi. Átökin segir hann hafa staðið yfir í um þrjár mínútur. Á endanum hafi honum tekist að komast ofan á ljónið og þrengt að hálsi þess með fætinum þar til það hætti að berjast um.

