Innlent

Hátt í hundrað ferða­menn fengu húsa­skjól í Vík í brjáluðu veðri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björgunarsveitarbíll frá björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli við lokun á Suðurlandsvegi, vegna óveðursins í gær
Björgunarsveitarbíll frá björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli við lokun á Suðurlandsvegi, vegna óveðursins í gær Vísir/Jóhann K
Hátt í hundrað ferðamenn gistu í íþróttahúsinu í Vík í nótt þar sem þeir gátu ekki haldið för sinni áfram vegna óveðursins sem skall á síðdegis í gær.

Rætt var við Ragnheiði Högnadóttur, sjálfboðaliða Rauða krossins í Vík, í Bítinu á Bylgjunni í morgun en hún lýsir veðrinu sem ógeðslegu.

„Brjálæðislegt rok og slydda, eins ógeðslegt og það getur verst orðið,“ segir Ragnheiður.

Hún segir eitthvað tjón hafa orðið í bænum vegna veðursins þar sem björgunarsveitir hafi verið að störfum fram eftir nóttu að tryggja húsþök og annað vegna hættu á foktjóni.

Alls gistu 96 ferðamenn í íþróttahúsinu í Vík frá fimmtán þjóðlöndum. Ragnheiður segir gestina hafa tekið þessu af æðruleysi.

„Veðrið var bara brjálað og þau voru fegin að komast einhvers staðar í hús.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×