Tæplega 400 flugfreyjur misstu vinnuna í gær vegna gjaldþrots WOW air og fá ekki greidd laun um mánaðamótin. Vegna stöðunnar var boðað til félagsfundar hjá Flugfreyjufélags Íslands í dag.

Andrúmsloftið var magnþrungið en hátt í þrjú hundruð manns mættu á fundinn. „Bara ömurlegt. Það er gífurleg sorg sem ríkir meðal félagsmanna. Fólk er að átta sig á því að það er ekki bara búið að missa vinnuna heldur eru ekki tekjur að koma inn fyrir mars. Mánaðamótin eru handan helgarinnar og það þarf að borga reikninga,“ segir Berglind og bætir við að ákveðnir hópar séu verr settir en aðrir.
Margir félagsmenn hafi verið í námi með vinnu og þeir eigi hvorki rétt á atvinnuleysisbótum né námslánum. „Því tekjurnar hafa verið of háar. Þannig þessi staða er bara skelfileg og það er verið að benda fólki á félagsþjónustuna eða hjálparstofnun kirkjunnar. Þetta er grátlegt að þurfa að vera leiðbeina fólki í þessa átt,“ segir Berglind.

Þá misstu um 250 félagsmenn VR sem störfuðu hjá WOW air vinnuna í gær og voru þeir einnig boðaðir á fund í dag þar sem farið var yfir næstu skref. Á fundinum fengu menn þær fréttir að stjórn VR hafi samþykkti að greiða þeim laun um mánaðarmótin og verða þau greidd út frá því sem þeir hefðu fengið úr ábyrgðarsjóði launa. Stéttarfélagið mun síðan gera kröfu á ábyrgðarsjóðinn.
„Þetta er augljóslega mikið áfall, bæði að missa framfærslu og vinnu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.