Bandaríska fjárfestingafélagið Indigo Partners neitar að tjá sig um það hvort að félagið eigi nú í formlegum viðræðum við WOW air um að fjárfesta mögulega í félaginu. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa Indigo Partners við fyrirspurn Vísis um málið.
Í gær tilkynnti WOW air að skuldabréfaeigendur félagsins hefðu samþykkt að breyta kröfum sínum í hlutafé. Kröfuhafar hafa því í raun tekið félagið yfir og Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, því ekki lengur eini eigandi þess. Hann er hins vegar hluthafi eins og aðrir skuldabréfaeigendur og er áfram forstjóri fyrirtækisins.
WOW air leitar nú að mögulegum fjárfestum til að koma inn með fimm milljarða króna svo hægt sé að tryggja áframahaldandi rekstur flugfélagsins. Greindi félagið frá því í gær að viðræður við mögulega fjárfesta væru hafnar.
Beinast viðræðurnar meðal annars að bandaríska fjárfestingafélaginu Indigo Partners, að því er greint er frá í Markaðnum í dag, en í síðustu viku var sagt frá því að félagið hefði hætt við að fjárfesta í WOW air fyrir allt að 90 milljónir dollara, eða sem samsvarar 10,5 milljörðum króna.
