Forstjóri Icelandair Group, Bogi Nils Bogason, sagði í fréttum Stöðvar í gærkvöldi, í tengslum við viðræðuslit vegna WOW air, að ef frekari töf yrði á því að félagið gæti tekið Max vélarnar frá Boeing aftur í notkun væru aðra lausnir til skoðunar. Meðal annars að leigja vélar tímabundið.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, segir að félagið gæti vantað flugvélar í sumar þar sem ekki liggi fyrir hversu lengi Boeing vélarnar verði kyrrsettar.
Flugvélaframleiðandinn Boeing segist hafa boðið rúmlega 200 manns, flugstjórum, tæknisérfræðingum og fulltrúum hinna ýmsu yfirvalda, til fundar í Washingtonríki á miðvikudag. Jens Þórðarsson segir að tveir flugmenn Icelandair fari á fundinn.
Grunsamlegur hugbúnaður uppfærður
Boeing hefur unnið að uppfærslu hugbúnaðar Max vélanna en hann hefur verið talinn hugsanleg ástæða þess að tvær þeirra fórust.„Ef að þessi tvö slys í Eþíópíu og Indónesíu eru svipaðs eðlis þá er þessi hugbúnaður sennilega skref í átt að því að auðvelda það að réttlæta flug vélanna,“ segir Jens.
Aðspurður um hversu langt ferli það geti verið að heimila flug Max véla Boeing á ný segir Jens að yfirvöld fari gaumgæfilega í gegnum málið.
„Þau munu væntanlega gera sérstakar kröfur til þess að þetta verði vottað áður en þau heimila flug á vélunum, umfram það sem er venjulega gert,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.