Handbolti

Handboltafólk hefur fengið nóg og krefst breytinga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Nikola Karabatic er í myndbandinu umtalaða.
Nikola Karabatic er í myndbandinu umtalaða.
Margir af bestu handboltamönnum heims koma fram í myndbandi í dag þar sem þeir segjast hafa fengið nóg af yfirgengilegu álagi í handboltaheiminum. Nú sé mál að linni. Þessu verði að breyta.

Álagið á handboltafólk í heimsklassa hefur verið til umræðu í mörg ár enda er nánast aldrei frí hjá þeim. Tímabilin eru löng og leikirnir endalausir hjá bestu liðunum. Það eru 1-2 stórmót á ári og spilað langt fram á sumar. Nú hefur handboltafólkið endanlega fengið nóg.

Samtök atvinnumanna í handbolta hefur sent forsetium IHF og EHF bréf þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum sínum af ástandinu og kvarta yfir því að ekki sé hlustað á þarfir leikmanna.

Sífellt fleiri handboltamenn meiðast alvarlega vegna álagsins. 38 leikmenn meiddust í aðdraganda síðasta HM og 17 til viðbótar meiddust á mótinu. Þetta er einfaldlega of mikið segja leikmenn sem ætla ekki að láta bjóða sér þetta lengur.

Leikmenn segja að engin virðing sé borin fyrir þeim og heilsu þeirra. Ekki kemur fram hvernig þeir ætli sér að mótmæla ef stóru samböndin gera ekki eitthvað til þess að minnka álagið.

Guðjón Valur Sigurðsson er eini Íslendingurinn sem kemur fram í myndbandinu en þarna má sjá stórstjörnur eins og Mikkel Hansen, Nikola Karabatic, Sander Sagosen, Uwe Gensheimer og miklu fleiri til. Allir taka þátt í að dreifa myndbandinu í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×