Erlent

Dóttir Trump hafnaði stöðu for­­seta Al­­þjóða­bankans

Atli Ísleifsson skrifar
Ivanka Trump gegnir stöðu ráðgjafa Bandaríkjaforseta.
Ivanka Trump gegnir stöðu ráðgjafa Bandaríkjaforseta. Getty
Ivanka Trump, dóttir Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur staðfest að hún hafi hafnað boði föður síns um að taka við stöðu forseta Alþjóðabankans.

Donald Trump greindi frá því í síðustu viku að hann hafi spurt dóttur sína hvort hún vildi taka við embætti forseta Alþjóðabankans „þar sem hún [væri] mjög góð að fást við tölur“. Ivanka segist nú hafa svarað föður sínum á þann veg að hún væri ánægð að sinna verkefnum sínum sem ráðgjafi forsetans.

Bandaríski hagfræðingurinn David Malpass hefur verið valinn til að gegna stöðu forseta Alþjóðabankans, en samkvæmt venju er það Bandaríkjamaður sem gegnir stöðu forseta Alþjóðabankans og Evrópumaður sem stýrir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í ferð sinni til Fílabeinsstrandarinnar í dag var Ivanka Trump spurð út í aðdraganda ráðningar forseta Alþjóðabankans af fréttamanni AP og sagði hún föður sinn hafa nefnt við sig umrædda stöðu. Sagðist hún hafa hafnað boðinu og bætti svo við að hún telji að Malpass muni standa sig „ótrúlega vel“.

Þegar hún var spurð hvort að faðir hennar hafi boðið henni einhverjar aðrar stöður sagði hún að það yrði „einungis á milli þeirra“.

Forsetinn hefur sjálfur sagt að hann hafi íhugað að fá dóttur sína til að gegna fjölda ólíkra embætta  – meðal annars sem sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum – þar sem hann teji hana vera „náttúrulegan diplómata“. Hann hafi hins vegar fengið ábendingar um að það myndi flokkast sem „frændhygli“ að tilnefna hana. Hann væri þó ekki sammála því – frændhygli myndi ekki hafa neitt með málið að gera.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×