Samgöngustofa hafði nánast daglegt eftirlit með rekstri flugfélagsins WOW air frá haustmánuðum og þar til félagið fór í þrot í lok mars. Þetta kemur fram í samantekt stjórnarráðsins á viðbrögðum stjórnvalda við falli WOW air sem birt var á vef ráðuneyta í dag.
Eftirlit Samgöngustofu laut fyrst og fremst að því hvort öryggiskröfum og fjárhagskröfum væri fullnægt. Þá hafa fundir fulltrúa Samgöngustofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis á tímabilinu einnig verið reglulegir, a.m.k. vikulegir.
Í aðdraganda falls WOW var Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, innt eftir því hvernig eftirliti stofnunarinnar með félaginu væri háttað. Hún sagðist þá ekki geta veitt upplýsingar um málefni einstakra flugfélaga en sagði eftirlit með fjárhag og flugöryggi slíkra félaga geta verið mjög ítarlegt hverju sinni.
Þá hafði Björgólfur Jóhannsson fyrrverandi forstjóri Icelandair Group gagnrýnt eftirlitsaðila í ljósi stöðu WOW air og sagði Samgöngustofu m.a. hafa brugðist eftirlitsskyldu sinni gagnvart félaginu.
Á meðal annarra viðbragða stjórnvalda við falli WOW air er aukið fjármagn til Vinnumálastofnunar og heilbrigðisstofnana vegna atvinnuleysis, úrræði fyrir námsmenn sem misst hafa vinnuna, fundir ráðherra með fulltrúum sveitarfélaga, mennta- og heilbrigðisstofnana og viðbúnaðarhópur sem komið var á fót vegna heimflutnings farþega WOW air. Þá verður einnig komið til móts við þarfir samfélagsins á Suðurnesjum og viðbragðsaðilar hinna ýmsu stofnana virkjaðar.
Heildarsamantekt stjórnvalda og aðgerðir hvers ráðherra fyrir sig má nálgast hér.

