Kjörstaðir í þingkosningunum á Spáni opnuðu í morgun. Nær öruggt er að enginn flokkur nái hreinum meirihluta og líkur eru á því að stjórnarmyndun eftir kosningar verði erfið enda hefur önnur eins sundrung ekki sést í spænskum stjórnmálum á síðari árum.
Fimm flokkar berjast um að komast í ríkisstjórn. Á vinstri vængnum sækjast Sósíalistaflokkur Pedro Sánchez, forsætisráðherra, og Við getum eftir því að mynda ríkisstjórn saman. Á hægri vængnum gætu Lýðflokkurinn og Borgararnir tekið höndum saman við hægriöfgaflokkinn Vox sem verður sá fyrsti til að ná fleiri en einu þingsæti á spænska þinginu eftir að lýðræði var komið aftur á þar á 8. áratugnum.
Kosningarnar hófust klukkan níu að spænskum tíma í morgun, klukkan sjö að íslenskum tíma. Kjörstöðum lokar á meginlandinu klukkan átta í kvöld að spænskum tíma, klukkan sex á íslenskum tíma.
Skoðanakönnun verður birt um leið og kjörstöðum lokar og búist er við að úrslit byrji að streyma inn eftir því sem líður á kvöldið. Talningu atkvæða ætti að vera lokið að mestu leyti á miðnætti að spænskum tíma, klukkan tíu að íslenskum tíma. Reuters-fréttastofan bendir á að í síðustu tveimur kosningum hafi útgöngukannanir ekki gefið rétta mynd af endanlegum úrslitum þeirra.
Þetta er í þriðja skipti á fjórum árum sem Spánverjar kjósa til þings. Glundroði hefur ríkt í stjórnmálalífi landsins, bæði vegna eins stærsta spillingarmáls í sögu Spánar sem skók Lýðflokkinn og sjálfstæðisbaráttu Katalóna.
Sánchez tók við sem forsætisráðherra í fyrra eftir að ríkisstjórn Mariano Rajoy úr Lýðflokknum sem felld með vantrauststillögu í þinginu. Leiðtogi sósíalista boðaði til skyndikosninga í febrúar þegar honum tókst ekki að koma fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar sinnar í gegnum þinginu. Ástæðan var sú að katalónskir sjálfstæðissinnar á spænska þinginu neituðu að styðja frumvarpið eftir að Sánchez neitaði að fallast á bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði sjálfstjórnarhéraðsins.

