Umfjöllun og viðtöl: Fram - Valur 26-29 | Valskonur með pálmann í höndunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sandra skoraði jöfnunarmark Vals úr vítakasti þegar venjulegur leiktími var liðinn.
Sandra skoraði jöfnunarmark Vals úr vítakasti þegar venjulegur leiktími var liðinn. vísir/vilhelm
Valur er kominn í 2-0 gegn Fram í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta kvenna eftir sigur í frábærum framlengdum leik í Safamýrinni í dag, 26-29.

Fram var í kjörstöðu til að landa sigrinum, tveimur mörkum yfir og með boltann þegar skammt var til leiksloka. Heimakonur fóru hins vegar illa að ráði sínu í tveimur sóknum í röð og gestirnir refsuðu með mörkum úr hraðaupphlaupum.

Á lokamínútunni fiskaði Karen Knútsdóttir vítakast. Hún fór sjálf á línuna, skoraði og kom Fram yfir, 22-21. Valur fór í sókn og í þann mund sem leiktíminn rann út sótti Sandra Erlingsdóttir víti. Hún tók það sjálf, skoraði og jafnaði í 22-22.

Eftir þennan endi á venjulegum leiktíma var vindurinn í segl Valskvenna í framlengingunni sem þær unnu, 7-4, og leikinn, 26-29.

Valur getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í þriðja leik liðanna á Hlíðarenda á sunnudaginn.

Af hverju vann Valur?

Fyrri hálfleikurinn var mikil þeysireið. Bæði keyrðu grimmt og meirihluti markanna kom eftir hraðar sóknir.

Fram réði illa við leiftursóknir Vals framan af leik en það lagaðist eftir því sem leið á fyrri hálfleik.

Valur var samt alltaf með frumkvæðið í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að Íris Björk Símonardóttir hefði ekki náð sér á strik í marki gestanna. Hinum megin var Erla Rós Sigmarsdóttir frábær og varði helming þeirra skota sem hun fékk á sig í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var 12-13, Val í vil.

Valsvörnin var gríðarlega öflug í upphafi seinni hálfleiks og Íris snögghitnaði í markinu.

Seinni hálfleikurinn var miklu hægari en sá fyrri og meira um uppstilltar sóknir sem gengu misvel. Um miðjan seinni hálfleik fóru Framarar loksins að koma boltanum inn á Steinunni Björnsdóttur á línunni, fengu nokkur mörk út úr því og náðu tökum á leiknum.

Heimakonur komu sér í góða stöðu en köstuðu henni frá sér með slæmum ákvörðunum á lokamínútunum. Valskonur nýttu sér það, knúðu fram framlengingu og voru mun sterkari aðilinn í henni.

Hverjar stóðu upp úr?

Lovísa Thompson byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og skoraði grimmt í byrjun. Hún ætlaði sér þó oft of mikið og tók alls 24 skot í leiknum, mörg hver úr erfiðum færum. En ellefu þeirra fóru inn og Lovísa var markahæst á vellinum í dag.

Sandra var ísköld á vítalínunni og Díana Dögg Magnúsdóttir átti góðan leik, bæði í vörn og sókn. Íris Björk varði aðeins fimm skot í fyrri hálfleik en var öflug í þeim seinni og framlengingunni. Hún endaði með 20 skot (43%).

Erla Rós var frábær í venjulegum leiktíma og varði þá 21 skot. Hún gaf hins vegar eftir í framlengingunni og Stefán Arnarson, þjálfari Fram, hefði ef til vill mátt skipta fyrr um markvörð.

Karen Knútsdóttir var frábær í fyrri hálfleik þar sem hún skoraði sex af sjö mörkum sínum. Steinunn fékk ekki úr miklu að moða framan af leik en um leið og hún fékk þjónustu gekk Framsóknin betur. Hún skoraði fimm mörk úr jafn mörgum skotum og fiskaði tvö víti.

Hvað gekk illa?

Líkt og í fyrsta leiknum á Hlíðarenda reyndi Ragnheiður Júlíusdóttir mikið í dag. Hún skoraði sjö mörk en þurfti 23 skot til þess. Í leikjunum tveimur í úrslitaeinvíginu er hún með 13 mörk í 43 skotum sem gerir 30% skotnýtingu.

Í hinni skyttustöðunni var lítil sem engin skotógn af Hildi Þorgeirsdóttur sem skoraði aðeins eitt mark í leiknum og lét lítið að sér kveða.

Sóknarleikur Vals var stirður þegar liðið þurfti að stilla upp og full einhæfur. Mikið mæddi á leikmönnunum fyrir utan en þær Lovísa, Sandra og Díana Dögg skoruðu 25 af 29 mörkum liðsins. Hornaspilið var bágborið og Valur fékk ekki mark af línu í dag.

Hvað gerist næst?

Eins og áður sagði mætast liðin í þriðja á Hlíðarenda á sunnudaginn. Með sigri verður Valur Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðan 2014. Vinni Fram mætast liðin í fjórða sinn í Safamýrinni á Verkalýðsdaginn.

Díana Dögg: Gefumst aldrei upp

Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði sex mörk þegar Valur bar sigurorð af Fram í dag.

„Liðsheildin skóp þennan sigur. Við lentum undir í seinni hálfleik en jöfnuðum á síðustu stundu. Við gefumst aldrei upp og það er ástæðan fyrir því að við erum komnar svona langt,“ sagði Díana við Vísi eftir leik.

Valskonur keyrðu grimmt í leiknum í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik, og freistuðu sér að koma sér í færi áður en Framarar náðu að stilla vörninni upp.

„Þær keyra eins og brjálæðingar á okkur. Við viljum keyra á þær en á milli viljum við slaka á. Þær vita aldrei hvort við ætlum að keyra eða drepa tempóið. Það er frábært þegar andstæðingurinn er óviss,“ sagði Díana.

Í framlengingunni var aldrei spurning hvorum meginn sigurinn myndi enda.

„Við erum með svo góða liðsheild. Ef ein finnur sig ekki kemur önnur og stígur upp. Við gerum þetta saman,“ sagði Díana.

Með sigri í þriðja leiknum á sunnudaginn verða Valskonur Íslandsmeistarar.

„Þær koma örugglega dýrvitlausar til leiks. Þær eru búnar að tapa tveimur leikjum í röð og eru ekki vanar því. Þetta hafa verið skemmtilegir leikir en ég get ekkert sagt til um hvað gerist í næsta leik,“ sagði Díana að lokum.

Stefán: Áttum að klára þetta

„Ég er ósáttur að hafa ekki klárað þetta í venjulegum leiktíma. Við vorum í góðri stöðu,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir tap Íslandsmeistaranna fyrir Val í dag. Valskonur eru nú 2-0 yfir í einvígi liðanna og með sigri á sunnudaginn verða þær Íslandsmeistarar.

Sandra Erlingsdóttir jafnaði fyrir Val úr vítakasti þegar venjulegur leiktími var runninn út. Stefán var ekki sáttur með þann dóm og ræddi lengi við dómarana eftir leik.

„Það er alltaf eitt og annað sem maður er ekki sáttur við en heilt yfir dæmdu þeir þetta vel,“ sagði Stefán.

Fram var í vænlegri stöðu undir lokin, tveimur mörkum yfir, en kastaði sigrinum frá sér.

„Við áttum tvær slakar sóknir og þær refsuðu með mörkum úr seinni bylgju. Við skiluðum okkur illa til baka og ég er ósáttur með það. Við áttum að klára þetta,“ sagði Stefán.

Valur var alltaf skrefinu á undan í framlengingunni sem liðið vann, 7-4.

„Oft er það þannig að liðið sem skorar fyrst vinnur. Þær skoruðu ódýr mörk og þá datt stemmningin niður,“ sagði Stefán.

Fram þarf að vinna á Hlíðarenda á sunnudaginn, annars verður Valur Íslandsmeistari. Stefán gat ekki stillt sig um að skjóta aðeins á Valsmenn.

„Við förum á Hlíðarenda til að vinna en það kæmi mér ekki á óvart að Valsmenn væru byrjaðir að panta hljómsveit fyrir sunnudaginn,“ sagði þjálfarinn að lokum.

Ágúst: Tómt rugl hjá Stebba

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var glaðbeittur í leikslok, enda hans lið komið í 2-0 gegn Fram í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

„Þetta réðist á 1-2 atriðum. Fram var með yfirhöndina en við stálum þessu í lokin. Liðin eru jöfn og þetta var stál í stál,“ sagði Ágúst.

Útlitið var dökkt fyrir Val undir lok leiks en liðið tryggði sér framlengingu með því að skora þrjú af síðustu fjórum mörkum venjulegs leiktíma. Valur var svo betri í framlengingunni og vann á endanum þriggja marka sigur, 26-29.

„Það kom smá yfirvegun í liðið. Spennustigið var hátt en við slökuðum á í framlengingunni. Þetta var stöngin inn hjá okkur í dag,“ sagði Ágúst.

Þrátt fyrir að staða Vals sé góð er Ágúst meðvitaður um að lið hans eigi enn eftir að stíga yfir stærsta þröskuldinn. Og undirbúningurinn fyrir meistarafögnuðinn er ekki hafinn eins og kollegi Ágústs hjá Fram, Stefán Arnarson, gaf í skyn eftir leik.

„Það er tómt rugl hjá honum,“ sagði Ágúst og brosti. „Við þurfum að vinna einn leik í viðbót og nálgumst næsta leik eins og hina í einvíginu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira